Sveitarstjórnarkosningar xD og óháðir: öruggar samgöngur og tenging milli atvinnusvæða

Listi sjálfstæðismanna og óháðra. Á myndina vantar, Ólaf Byron Kristjánsson, Ólaf Steingrímsson og Jónínu Helgu Sigurðardóttur.

Sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar er fjölkjarna sveitarfélag þar sem búseta dreifist um sjávarbyggðir og sveitir á nokkuð víðfeðmu svæði. Á D-lista sjálfstæðisflokks og óháðra er mikið af öflugu fólki, sem býr um allt sveitarfélagið og vill leggja sitt af mörkum fyrir samfélagið.

Allt það sem skiptir máli til þess að fólk vilji búa hér og starfa skiptir okkur máli. Við leggjum áherslu á að skapa umhverfi sem hlúir vel að öllum aldurshópum og tekur vel á móti öllum þeim sem vilja leggja okkur lið í að búa til öflugt samfélag.

Til þess að samfélagið nái sem bestum árangri í því að laða að fólk og fyrirtæki og hugsa sem best um þá sem fyrir eru, þá þarf öruggar samgöngur um svæðið. Við þurfum að leggja áherslu á tengingu milli atvinnusvæða innan hins nýja sameinaða sveitarfélags, þar sem framtíðarsýn okkar í samgöngum er með gerð jarðgangna en ekki fjallvegum. Aðgangur fólks að heilbrigðisþjónustu og almennt öryggi verður ekki viðunandi nema með slíkum samgöngubótum. Atvinnulíf, félagsstarf og menningarlíf með bættum samgöngum um sveitarfélagið myndi gjörbreytast.

Það eru mikil tækifæri fólgin í því að bæta samgöngur út frá öryggissjónarmiðum og ekki síður með tilliti til umhverfisþátta. Við þurfum því að hafa skýra framtíðarsýn í samgöngumálum, huga að nýjum lausnum og ætlum að beita öllum okkar áhrifum og kröftum til að ýta þessum málum áfram!

Undirstaðan í samkeppnishæfu samfélagi er traust atvinnulíf sem forsenda velferðar og lífsgæða. Við leggjum áherslu á að skilyrði séu til staðar til að byggja undir vöxt í atvinnulífinu, hvort heldur sem um er að ræða sjávarútveg, fiskeldi, ferðaþjónustu eða hefðbundinn landbúnað, þannig að byggðirnar geti haldið áfram að vaxa og blómstra. Við viljum greina tækifærin sem felast í þjóðgarði og bæta aðgengi að okkar helstu seglum í ferðaþjónustunni. Það er brýnt að sinna úrbótum á helstu ferðamannaleiðum, en þar höfum við einfaldlega setið eftir.

Samgöngur, félags- skóla- og velferðarmál, skipulagsmál, ljósleiðaravæðing, raforkumál, fjarskipta- og atvinnumál, það er af nógu að taka og nýjar áskoranir blasa við í sameinuðu sveitarfélagi. Mikilvæg verkefni eru framundan í samfélagi okkar, hvort heldur sem um er að ræða í uppbyggingu innviða eða þjónustu við íbúa, líkt og við komum inn á í stefnuskrá okkar sem hægt er að kynna sér á xd.is/sameinud.

Á þessu fyrsta kjörtímabili verður tekið upp vinnulag heimastjórna og því mun okkar samvinna og verklag þurfa að mótast af reynslunni sem af því skapast. Við ætlum okkur að standa vörð um sérstöðu byggðanna og höfum metnað til að byggja upp nýtt og öflugt samfélag í samvinnu við íbúa og atvinnulíf. Við biðjum um umboð kjósenda til þess að við getum leitt þessa vinnu og höfum einsett okkur að standa samhent undir þeim verkefnum sem framundan eru.

Sameinuð í sókn.

Stefnuskrá xD

DEILA