Strok laxa úr landeldisstöð Samherja

Eldisstöð Samherja í Öxarfirði. Mynd: Samherji.

Matvælastofnun barst tilkynning frá Samherja Fiskeldi á mánudaginn, þann 6. maí 2024 um óhapp sem gæti hafa leitt til stroks eldislax úr fiskeldisstöð þeirra í Silfurstjörnunni, Öxarfirði.

Matvælastofnun segir í tilkynningu um málið að strokið hafi uppgötvast við eftirlit starfsmanna 6. maí er seiði sáust í settjörn stöðvarinnar. Seiðin voru u.þ.b. 70-80 gr. og ósmoltuð. Ekki er hægt að útiloka að seiðin hafi smoltast í settjörninni og komist út í sjó. Samkvæmt upplýsingum frá rekstraraðila fundust 868 seiði utan kers en óljóst er á þessum tímapunkti hvers mörg seiði struku í heild og þ.a.l. óljóst hve mörg seiði bárust í settjörnina. Rekstrarleyfishafi vinnur að endurheimt fiska úr settjörn og nákvæmari talningu til þess að meta umfang stroksins.

Matvælastofnun hefur kallað eftir gögnum og upplýsingum er varða viðbrögð fyrirtækisins og er atvikið til rannsóknar hjá stofnuninni.

Samherji segir frá því í tilkynningu á vefsíðu sinni að við fyrstu athugun virðist kerfisbilun í nýju eldiskerfi seiðastöðvar hafa valdið því að seiði soguðust í frárennsliskassa á eldiskeri og út um frárennslisrör, yfir í millibrunn og þaðan í settjörn. Sleppivarnir eru á þremur stöðum í frárennsliskerfi seiðastöðvar; á hverri eldiseiningu, í millibrunni og settjörn. Sleppivarnir á frárennsliskassa og millibrunni virðast ekki hafa virkað sem skyldi en þær hafa þegar verið yfirfarnar og efldar segir í tilkynningunni.

Þá segir að Samherji fiskeldi hafi stundað landeldi í 25 ár án slíkra óhappa. Félagið vinni eftir ströngum verklagsreglum og gæðastöðlum og leggur það ríka áherslu á að stunda landeldi á sjálfbæran og öruggan hátt. Samherji fiskeldi harmar atvikið en strax var hafist handa við að rannsaka orsakir og hefja mögulegar úrbætur til að fyrirbyggja að slíkt endurtaki sig.

DEILA