Strandabyggð: sendir Alþingi áskorun um samgönguúrbætur

Innstrandarvegur er í Steingrímsfirði innan Hólmavíkur. mynd: Jón Halldórsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti í síðustu viku áskorun til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um úrbætur í samgöngum í sveitarfélaginu.

Bendir sveitarstjórn á að á gildistími tveggja síðustu samgönguáætlanna hafa svo til engar nýframkvæmdir í vegamálum verið í Strandabyggð. Sú eina framkvæmd sem þó var á samgönguáætlun hafi ítrekað verið frestað við gerð nýrrar áætlunar. Slíkt er með öllu óviðunandi.

Sveitarstjórn Strandabyggðar leggur áherslu á að einbreiðum brúm á Ströndum verði fækkað markvisst á næstu árum. Einnig er þess krafist að áfram verið haldið með almennar vegabætur á Ströndum.

Vakin er athygli á ástandi Innstrandarvegar nr 68 frá Steingrímsfirði inn i Hrútafjörð. Vegurinn er um 100 km langur og er malarslitlag á 39 km þar af. Á veginum séu 13 einbreiðar brýr. Margar þeirra eru sérstaklega varasamar vegna nálægðar við aðra hættu, svo sem erfiðar beygjur eða blindhæðir.

Óskir um forgangsröðun framkvæmda
Sveitarstjórn Strandabyggðar vill forgangsraða framkvæmdum í sveitarfélaginu með
eftirfarandi hætti:

  1. Einbreið brú yfir Hrófá í Steingrímsfirði og vegabætur á blindhæð við brúnna.
    Einbreiða brúin yfir Hrófá er orðin mjög léleg. Í Árnesinu að sunnanverðu við brúna
    er blindhæð um 100 m frá brúarenda. Þar hafa orðið mörg umferðaróhöpp og árið
    2019 varð banaslys á þessum stað. Brýnt er að laga þennan kafla og endurnýja
    brúnna sbr. Skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa
    https://www.rnsa.is/media/4769/2019- 097u013-innstrandavegur-vid-hrofa.pdf
  2. Vegrið vantar á nokkra kafla þar sem slys hafa orðið. Þetta á við um kafla á
    Vestfjarðarvegi nr. 60 t.d. við Stórgrýtisbug sunnan Hólmavíkur og við Hrófberg í
    botni Steingrímsfjarðar. Einnig þarf að setja vegrið í Kollafirði norðanverðum á
    Innstrandavegi nr. 68 þar sem mjög bratt er niður af vegi og er skólaakstursleið.
  3. Einbreið brú yfir Langadalsá í Ísafjarðardjúpi Þarna hafa orðið mörg umferðaróhöpp.
    Sveigja á veginum beggja vegna brúarinnar takmarkar vegsýn þegar komið er að
    brúnni.
  4. Einbreið brú yfir Selá á Langadalsströnd. Brúin er orðin mjög léleg og þolir ekki
    þungaflutninga lengur. Brúin er mikilvæg vegna byggðar og einnig er hún á vegi að
    mikilvægum ferðamannastöðum á Snæfjallaströnd og Langadalsströnd t.d.
    Kaldalón.
DEILA