Smábátahöfnin á Brjánslæk 

Í frétt á vefsíðu Vesturbyggðar segir frá því að það lifni yfir smábátahöfninni á Brjánslæk þegar bátarnir mæta að bryggjunni, hver af öðrum, eftir að hafa verið í uppsátri yfir veturinn.

Og þá er kominn tími til að hafnarvörðurinn vakni af vetrardvalanum og fari að sinna sínu starfi sem felst aðallega í því að vigta og skrá afla sem landað er.

Í fyrra var tekin í notkun ný og glæsileg smábátahöfn. Grjótgarðurinn fyrir hana var gerður haustið 2022 en síðastliðið sumar var steyptum landstöpli komið fyrir og flotbryggja fest við hann. Þá var einnig lagt rafmagn á bryggjuna.

Tilkoma nýju hafnarinnar bætir mjög aðstöðu og öryggi til útgerðar því þar eru bátarnir í vari fyrir kvikunni sem myndast í sunnanáttum.

Einn bátur, Æsir, hefur gert út á grásleppu það sem af er vori og hefur hann landað um 19 tonnum af grásleppu. Innra veiðisvæðið opnar 20. maí og þá fjölgar bátunum sem stunda þessar veiðar.

Í vinnsluhúsinu við höfnina hefur Sæfrost ehf. séð um að verka grásleppuna sem landað er auk þess sem grásleppa hefur verið flutt þangað víða að af landinu til verkunar. Hrognin eru söltuð og seld til Svíþjóðar en hveljuna kaupir Hamrafell ehf. til frystingar. Hjá Sæfrosti hafa starfað mest 7 manns í vor og búið er að salta hrogn í rúmlega 1000 tunnur.

Strandveiðarnar fara hægt af stað en það rætist vonandi úr því.

DEILA