Skírnarkjóll á húsmæðrasýninguna

Kristín Össuardóttir kom færandi hendi með skírnarkjóll á húsmæðraskólasýninguna í Tónlistarskólanum á Ísafirði. Kjólinn saumaði Kristín er hún stundaði nám við Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði vorið 1958. 

Þrjár kynslóðir hafa verið skírðar í kjólnum og hafa yfir 60 börn borið kjólinn við skírn. Fyrsta barnið var skírt í kjólnum í 1958, Helga Guðrún Guðjónsdóttir, systurdóttir Kristínar og síðastur var Davíð Páll Jónsson 2014, yngsta barnabarn Kristínar.

Saga Húsmæðraskóla Ísafjarðar

Húsmæðraskólinn var stofnaður árið 1912 og var fyrst til húsa í Pólgötu 8. Teknar voru tvær stofur á leigu, ásamt eldhúsi og herbergi fyrir forstöðukonuna.
Aðdragandi að stofnun skólans var sá að á fundi Kvenfélagsins Ósk árið 1911 var rætt um stofnun húsmæðraskóla á Ísafirði og barst Alþingi áskorun:
„Fundurinn óskar, að húsmæðraskóli verði settur á stofn á Ísafirði og skorar á Alþingi að taka þetta mál að sér, og veita fé svo ríflega, að hægt verði að koma skólanum á fót, sem allra fyrst.”
Frumkvöðull skólans var frú Camilla Torfason sem var fædd á Ísafirði árið 1864. Camilla var fyrsti formaður Kvenfélagsins Óskar. Hún hafði lokið stúdentsprófi frá Kaupmannahöfn á þeim árum sem íslenskar konur höfðu ekki öðlast rétt til stúdentsprófs og var þar með fyrsta íslenska konan sem lauk stúdentsprófi. Hún stundaði síðar nám við Kaupmannarhafnarháskóla ásamt því að sinna kennslustörfum í Danmörku. Hefur reynsla hennar af slíkum störfum vakið áhuga hennar á menntamálum kvenna og var markmið hennar og félagsins að efla samúð og samvinnu, glæða félagslíf bæjarbúa og hafa hvetjandi og menntandi áhrif á æskulýðinn, einkum stúlkurnar.

DEILA