Skipt um dráttarvír á Þór

Varðskip Landhelgisgæslunnar, Þór og Freyja, hafa öfluga dráttargetu til að geta brugðist við ef skip, stór sem smá, lenda í vandræðum á hafsvæðinu umhverfis landið. Dráttarvírinn leikur þar lykilhlutverk og áhöfn varðskipanna þurfa að tryggja að hann sé í góðu standi ef á þarf að halda.

 
Á dögunum kom í ljós smávægileg skemmd á dráttarvír varðskipsins Þórs og var brugðið á það ráð að skipta um vírinn. Varðskipið fór að bryggju hjá Hampiðjunni í Neskaupstað þar sem víraskiptin fóru fram. Gamla dráttarvírnum var spólað í land á tvö kefli og nýjum vír komið fyrir. Þá var eitt kefli tekið um borð með um 480 metra varavír sem hífður var niður í lest til geymslu.

 
Þegar þessu var lokið hélt varðskipið sína leið frá Neskaupstað. Sævar Már Magnússon, bátsmaður, var með myndavél á sér við þessa vinnu og tók saman áhugavert myndband sem sýnir hvernig víraskiptin fóru fram. 

DEILA