Réttindin duttu ekki af himnum ofan!

Í dag er alþjóðlegur báráttudagur verkafólks, fólksins sem barist hefur fyrir þeim réttindum sem í dag, öllum þykja sjálfsögð og eðlilegur huti samfélagsins. Hinsvegar er til fólk sem finnst verkalýðsbarátta algjörlega tilgangslaus og sumir ganga svo langt að segja verkalýðsfélög óþörf!

Ok, ekkert mál. Ef stéttarfélögin eru bæði tilgangslaus og óþörf viltu þá ekki sleppa því að nýta þér orlof, uppsagnarfrest, veikindarétt, sjúkrasjóði, fæðingarorlof, lífeyrissjóði, hvíldartíma, hagstætt leiguhúsnæði og önnur þau réttindi sem ríflega 100 ára barátta fólksins í stéttarfélögum hafa skilað og eru þín réttindi í dag!

Þessi réttindi verðum við öll að halda áfram að verja því það gerir “enginn rassgat einn” svo vitnað sé til eins af slagorðum Adrei fór ég suður, tónlistarhátíðar alþýðunnar. Því ef við sjálf verjum ekki þessi dýrmætu réttindi þá er næsta víst að þau verði tekin af okkur. Einmitt það staðfesta hugmyndir sumra atvinnurekenda um breytt skipulag á lögum og reglum sem í dag tryggja þér og mér réttindin sem okkur öllu þykja svo sjálfsögð.

Fjölmennum því í kröfugöngur dagsins og tökum þátt í baráttu stéttarfélaganna og viðburðum sem stéttarfélögin í landinu bjóða upp á. Því á þessum degi, 1. maí, minnumst við baráttunar fyrir bættum kjörum og réttindum sem við látum ekki taka frá okkur.

Til hamingju með daginn okkar 1. maí.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

DEILA