Patreksfjörður: vegleg fjögurra daga hátíð um sjómannadagshelgina

Sjómannadagsráð Patreksfjarðar hefur birt dagskrá hátíðahaldanna um sjómannadagshelgina. Að venju er dagskrá í fjóra daga og hefst hún eftir viku fimmtudaginn 30. maí kl 17 með Eyfahlaupinu, sem er til minningar um Eyjólf Tryggvason, en hann lést af slysförum fyrir þremur árum. Um kvöldið stígur Sóli Hólm á svið í Félagsheimilinu og verður með uppistand.

Á föstudagskvöldið verða stórtónleikar í Félagsheimili Patreksfjarðar föstudaginn 31. maí þar sem Páll Óskar og Sigga Beinteins ásamt Stuðlabandinu munu flytja alls konar lög úr öllum áttum.

Fjölmörg atriði eru á dagskránni, svo sem sýningar, golfmót, pylsugrill, götusúpa og skemmtidagskrá við leikskólann. Sjómannamessa verður á sjómannadaginn og kappróður við höfnina svo fátt eitt sé nefnt.

DEILA