OV: allur hagnaður hverfur í olíubrennslu

Rauðasandslína. Mynd úr ársskýrslunni.

Aukinn rekstrarkostnaður Orkubús Vestfjarða á árinu 2024 vegna skerðinga Landsvirkjunar á raforku sem var mætt með olíubrennslu verður ekki undir 550 millj. kr., eða meiri en nemur öllum hagnaði ársins 2023 eftir skatta.

Til þess að mæta þessum útgjöldum verður dregið úr framkvæmdum ársins og verða þær um 630 m.kr. Er það töluverður samdráttur frá 2023 þegar framkvæmt var fyrir 1.091 m.kr. Árið 2022 námu framkvæmdir 8305 m.kr.

Framkvæmdir síðasta árs voru í dreifikerfinu, þ. á. m. lagningu jarðstrengja og uppbyggingu í aðveitustöðvum ásamt viðhaldi og endurnýjun í innanbæjarkerfum. Þá voru settir fjármunir í jarðhitaleit,
unnið að rannsóknum og skipulagsverkefnum vegna mögulegra virkjana o.fl.

Þessar upplýsingar koma fram í ársskýrslu Orkubúsins fyrir 2023 sem hefur verið birt.

Það er mat stjórnar og stjórnenda Orkubús Vestfjarða að mikilvægustu verkefni næstu 10 ára séu uppbygging orkuframleiðslu fyrirtækisins. „Þannig má tryggja tekjuöflun með orkusölu þannig að fyrirtækið verði sjálfbært í orkuöflun. Þeir virkjanakostir sem fyrirtækið hefur til skoðunar eru auk þess þannig staðsettir að þeir hafa afgerandi áhrif á afhendingaröryggi raforku á veitusvæðinu. Með því að fjárfesta í virkjunum sem eru vel staðsettar í dreifikerfinu á Vestfjörðum getur fyrirtækið náð þremur mikilvægum markmiðum samtímis, þ.e. að tryggja orkuöflun, auka afhendingaröryggi raforku
á Vestfjörðum og gera félaginu kleift að taka þátt í grænum orkuskiptum á Vestfjörðum í samræmi við stefnu stjórnvalda. Grundvallarforsenda er þó að virkjanakostirnir reynist hagkvæmir og valdi sem minnstu raski á náttúrunni.“

DEILA