Nýr framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands

Nýkjörin stjórn Bændasamtaka Íslands hefur gengið frá ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjóra samtakanna frá og með 1. ágúst næstkomandi. Tekur hún við keflinu af Örvari Þór Ólafssyni, sem tók við því hlutverki tímabundið í byrjun apríl sl. samhliða störfum sínum sem fjármálastjóri samtakanna. Hagvangur annaðist ráðningarferlið og sóttu 28 manns um stöðuna.

Margrét Ágústa er lögfræðingur að mennt. Hún er með meistaragráðu úr lagadeild Háskóla Íslands og LL.M gráðu í evrópskum og alþjóðlegum skattarétti frá Háskólanum í Lundi. Margrét hefur starfað síðustu 6 ár hjá PwC á skatta- og lögfræðisviði en þar áður um árabil hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og yfirskattanefnd. Þá er Margrét Ágústa umsjónarkennari alþjóðlegs skattaréttar við Háskólann á Bifröst.

DEILA