Minjastofnun leggst gegn breytingum á byggingum við Sindragötu

Skuggavarp á Aðalstræti af nýbyggingu Sindragötu 4.

Lísbet Guðmundsdóttir, minjavörður Vestfjarða hefur sent umsögn Minjastofnunar um fyrirhugaða breytingu á nýbyggingu við Sindragötu í nágrenni friðaðra húsa við Aðalstræti á Ísafirði.

Minjastofnun telur ástæðu til að staldra við og endurskoða þessar breytingar í ljósi þess að skipulagssvæðið og fyrirhugaðir byggingarreitir eru í næsta nágrenni við friðuð hús sem tilheyra byggð með mikið varðveislugildi og bendir á að það hafi verið staðfest af hálfu Ísafjarðarbæjar með ákvörðun um hverfisvernd í aðalskipulagi og síðast með samþykktri tillögu sveitarfélagsins að verndarsvæði í byggð á
Skutulsfjarðareyri sem staðfest var af umhverfisráðherra 6. október 2023.

Bent er á að markmið hverfisverndar sé „að vernda íbúa og hagsmunaaðila fyrir óæskilegum breytingum á svæðinu og ásýnd þess“ og þar sem Ísafjarðarbær sé handhafi byggingarréttar á lóðinni og því hæg heimatökin að vanda uppbyggingu á svæðinu.

hugmyndir um að takmarka neikvæð áhrif eru tómt hjal

Gert er ráð fyrir að tvær byggingar verði á Sindragötu 4 og nú hefur verið samþykkt að hækka vestara húsið á skipulagssvæðinu um eina hæð, án formlegrar breytingar á deiliskipulagi eða grenndarkynningar.

„Ljóst er að uppbygging á lóðinni mun hafa áhrif á ásýnd hinnar heildstæðu gömlu götumyndar Aðalstrætis almennt og með uppbyggingu samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir Sindragötu 4 er
þegar fyrirséð um rof í stíl og kvarða byggðar á svæðinu en með því að hækka vestari nýbygginguna um eina hæð til viðbótar eru allar hugmyndir um að takmarka neikvæð áhrif nýrrar uppbyggingar í nágrenni við verndarsvæði, svo ekki sé minnst á að uppbygging styðji við varðveislugildi hinnar gömlu byggðar, tómt hjal.“

Þá segir í erindi Minjastofnunar að „Minjastofnun telur slíka uppbyggingu ganga gegn bæði hverfisvernd í
aðalskipulagi sem gildandi deiliskipulag vísar þó í, og verndarskilmálum verndarsvæðis í byggð“.

DEILA