Mest hækkun fasteignamats á Vestfjörðum

Hækkun fasteignamats allra eigna sundurliðuð eftir landssvæðum.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur birt nýtt fasteignamat sem gildir fyrir 2025. Það er unnið upp úr gögnum um fasteignaviðskipti á tímabilinu febr 2023 til febrúarloka 2024.

Samkvæmt þvi hækkar fasteignamat allra eigna um 4,3% á landinu öllu. Hækkunin er mismikil eftir landssvæðum og vekur athygli að mest er hækkunin á Vestfjörðum, en þar er hún 11%. Hins vegar er hækkunin aðeins 2,3% á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar litið er á íbúðaeignir sérstaklega þá er hækkunin einnig mest á Vestfjörðum eða 11,5% en minnst á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hún var aðeins 2,1%.

Hækkun fasteignamats íbúðarhúsnæðis eftir landshlutum.

Hækkunin er mismikil eftir sveitarfélögum á Vestfjörðum. Mest er hún í Tálknafirði eða 20% og næstmest 12,9% í Vesturbyggð. Í Bolungavík er hækkunin 12% og 11,5% í Ísafjarðarbæ.

Athygli vekur að í öllum þessum fjórum sveitarfélögum er laxeldi stór þáttur í atvinnustarfseminni.

Innan Ísafjarðarbæjar er langhæst hækkun á Þingeyri í sérbýli eða 36,2% og svo 29,2% fyrir sérbýli í Hnífsdal. Hækkunin á Suðureyri er 19,4% og á Flateyri 18,2% einnig fyrir sérbýli. Á Ísafirði í eldri byggð eins og það heitir hjá HMS er hækkunin á sérbýli 6,5% og 6,4% í nýrri byggð. Í fjölbýli er hækkunin 16,3% í eldri byggð og 7,5% í nýrri byggð.

DEILA