Hægir á verðhækkunum matvöru

Á heimasíðu Alþýðusambandsins er sagt frá því að verðbólga í matvöruverslunum fari lækkandi það sem af er ári.

Milli mánaða hækkaði verðlag þeirra um 0,12% samkvæmt greiningum verðlagseftirlits ASÍ. Jafngildir það um 1,4% hækkun á ársgrundvelli.

Þetta er margfalt lægri verðbólga en Hagstofan mældi í matar- og drykkjarvörum í fyrra en til viðmiðunar var árshækkun matvöruverðs 12,3% í maí á síðasta ári. Verðlag lækkar í fjórum verslunum en hækkar í sex. 

Verðlagsbreytingar eru reiknaðar með vigtun vöruflokka og verslana. Þegar talað er um breytingu á verðlagi er um að ræða veginn útreikning, en breyting á verði merkir stakan samanburð eða óvegið meðaltal.  

Við verðsamanburð eru skoðaðar verðmælingar frá hverju viðmiðunartímabili fyrir sig – meðalverð í hverjum mánuði, eða meðalverð tímabilsins 6-13. mars þegar borið er saman við undirritun kjarasamninga. Þessi verð eru borin saman við nýjustu verð sem verðlagseftirlitið hefur aflað, sem eru að jafnaði frá 21. maí 2024. 

DEILA