Guðbjörg Halla Magnadóttir hefur verið ráðin skólastjóri við Grunnskólann á Ísafirði og mun hefja störf þann 1. ágúst næstkomandi.
Guðbjörg Halla lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 1993. Árið 2003 lauk hún svo B.Ed. prófi til kennsluréttinda frá Kennaraháskóla Íslands. Árin 2016-2017 stundaði hún viðbótarnám fyrir stærðfræðikennara frá Háskóla Íslands og 2023 lauk hún svo MT-gráðu frá sama skóla.
Guðbjörg Halla er síður en svo ókunnug störfum í Grunnskólanum á Ísafirði. Hún hefur sautján ára reynslu sem stjórnandi við GÍ en frá árinu 2007 hefur hún starfað sem deildarstjóri á unglingastigi við skólann. Á tímabilinu hefur hún einnig sinnt kennslu á unglingastigi, einkum náttúru- og stærðfræði ásamt því að vinna að fjölbreyttum verkefnum í innleiðingu nýrra verkefna og verkferla.
Á árunum 1999 til 2007 starfaði Guðbjörg við textílkennslu og sem umsjónarkennari á miðstigi við GÍ. Guðbjörg býr yfir mikilli þekkingu á kennslu þar sem hún hefur kennt á öllum aldursbilum grunnskóla ásamt því að vera verkgreinakennari. Samhliða starfi hennar sem deildarstjóri hefur hún sótt fjölda námskeiða er snúa að stjórnun og mannauðsmálum, ásamt lögum og reglugerðum um grunnskóla.