Framsókn: fiskeldi skapar verðmæti fyrir nærsamfélagið og þjóðarbúið

Laxeldi Arctic Fish í Arnarfirði.

Á flokksþingi Framsóknarflokksins í síðasta mánuði var ítarleg samþykkt gerð um fiskeldi. Þar segir að fiskeldi skapi verðmæti fyrir nærsamfélög og fyrir þjóðarbúið í heild. „Fiskeldi veitir mikilvægt tækifæri fyrir hagvöxt og atvinnusköpun, sérstaklega á landsbyggðinni. Það stuðlar að fjölbreyttari hagkerfi og býður upp á mörg tækifæri fyrir ungt fólk og frumkvöðla. Þróun sjálfbærs fiskeldis á Íslandi getur einnig stuðlað að uppbyggingu þekkingar og sérhæfingar í tengdum greinum.“

Í ályktuninni segir að Framsókn vilji ná sátt um uppbyggingu og starfsemi fiskeldis á Íslandi. Slík sátt náist aðeins með skýrri lagaumgjörð, vísindalegum rannsóknum, sjálfbærri nýtingu auðlinda og virku eftirliti. Við framþróun eldisfyrirtækja á Íslandi þurfi að horfa til byggðasjónarmiða og sjá til þess að eldið skili tekjum til þeirra samfélaga þar sem fyrirtækin eru staðsett.

Ísland geti nýtt sér sterka stöðu sína í tæknigeiranum og rannsóknum til að þróa nýjungar í fiskeldi. Þetta feli í sér betri fóðurþróun, sjúkdómavarnir og sjálfbærar eldisaðferðir sem minnka umhverfisáhrifin og
auka lífvænleika framleiðslunnar.

Þá segir að mikilvægt sé að gagnsæi sé á eignarhaldi fiskeldisfyrirtækja. Brýnt sé að skoða hvernig takmarka megi samþjöppun eignarhalds aðila í fiskeldi á Íslandi og hvort takmarka eigi með einhverjum
hætti eignarhald erlendra aðila á eldisleyfum á Íslandi. Mikilvægt sé að horfa til þróunar í nágrannalöndum í þeim efnum. Huga þurfi að því að nýliðun geti átt sé stað í greininni og að vægi frumkvöðlastarfsemi í greininni verði tryggt.

Lögð er áhersla á fullnægjandi rannsóknir og segir í ályktuninni að tryggja þurfi að til þess bærir
vísindamenn séu fengnir til að rýna aðferðafræði sem Hafrannsóknarstofnun notar við mat á burðarþoli, við gerð áhættumats og eftirlit með landeldi. Eftirlitsaðilar þurfa að vera staðsettir í nálægð við starfsemina til að sinna virku eftirliti.
Framsókn vill skýra heimildir til eðlilegrar gjaldtöku af fiskeldi. Brýnt sé að gjaldtaka af fiskeldi hamli ekki uppbyggingu og samkeppnishæfni greinarinnar. Sérstaklega skuli horfa til aðlögunar nýliða og getu minni aðila sem njóta síður stærðarhagkvæmnis að standa undir gjöldunum.

Loks er fjallað um vernd villtra stofna og veiðiréttindi.

þar segir eftirfarandi.

„Hér á landi treysta margir á tekjur af veiði í ferskvötnum og ám. Brýnt er að vernda villta laxastofninn og tryggja að líffræðilegum fjölbreytileika í ám og vötnum sé ekki ógnað. Tryggja þarf eftirlit með seiðasleppingum. Samþjöppun veiðiréttinda, m.a. með stórfelldum jarðakaupum einstaklinga eða félaga þarf að taka sérstaklega til skoðunar. Mikilvægt er að stjórnvöld fari þar einnig fram með góðu fordæmi.“

DEILA