Framleiðsluvirði landbúnaðarins áætlað 89 milljarðar árið 2023

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar er heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins árið 2023 áætlað 89 milljarðar króna sem er rúm 8% aukning frá árinu 2022 en hana má rekja til hærra afurðaverðs.

Áætlað er að um 65% framleiðsluvirðisins teljist til búfjárræktar en um 27% til nytjaplönturæktar.

Gert er ráð fyrir að kostnaður við aðfanganotkun verði um 56 milljarðar króna árið 2023 sem er 4% aukning frá fyrra ári. Áætlunin gerir ráð fyrir svipuðu magni aðfanga en hækkun á verði þeirra. Miðað við þessar forsendur verður aðfanganotkun 63% af heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins sem er svipað og það var á fyrra ári. Rétt er að benda á að mat á aðfanganotkun er háð nokkurri óvissu og þar með verður mat á hlutdeild annarra útgjaldaliða einnig óvisst.

Áætlunin byggir á lokaúttekt fyrir árið 2022 og svo fyrirliggjandi upplýsingum um magn- og verðbreytingar á landbúnaðarvörum árið 2023.

DEILA