Framkvæmdir hafnar við brú yfir Fjarðarhornsá í Kollafirði

Á heimasíðu Vegagerðarinnar er sagt frá framkvæmdum við Fjarðarhornsá sem áætlað er að ljúki í desember 2025.

„Þetta er fyrsta steypan hér við Fjarðarhornsá í Kollafirði. Brúin verður vonandi komin í gagnið 1. desember,“ sagði Páll Halldór Björgúlfsson, verkefnastjóri framkvæmdarinnar, þegar ljósmyndarinn Haukur Sigurðsson hitti á hann í síðustu viku.  

Verkið felst í nýlagningu og endurbyggingu Vestfjarðarvegar á tveimur aðskildum köflum, sitt hvoru megin við fjallveginn Klettsháls eða samtals um tveir kílómetrar. Innifalið í verkinu er bygging tveggja steinsteyptra, eftirspenntra, plötubrúa í tveimur höfum yfir Fjarðarhornsá og yfir Skálmardalsá. Brýrnar tvær verða mjög áþekkar. Báðar 34 metra langar eftirspenntar plötubrýr með 9 m breiðri akbraut og 0,5 m breiðum kantbitum. Slitlag brúna verður úr hástyrkleikasteypu.

Fyrirhuguð brúarsmíði yfir Skálmardalsá.

 Vegagerðin er að mestu nýlagning með tengingu frá núverandi vegstæði að nýjum brúarstæðum og færslu á afleggjurum.  

„Brýrnar tvær leysa af hólmi tvær einbreiðar brýr sem eru komnar til ára sinna,“ segir Páll en gamla brúin yfir Fjarðarhornsá var byggð árið 1957 og brúin yfir Skálmardalsá árið 1956. Á sumrin aka um 375 bílar á sólarhring um þennan kafla en aðeins um 50 bílar á sólarhring yfir vetrartímann. (Tölur frá árinu 2022).

Nokkuð er síðan staurar voru reknir niður á fast  en brúarflokkar Vegagerðarinnar sáu um það verk. Framkvæmdir frestuðust nokkuð þar sem bjóða þurfti verkið út þrisvar sinnum. Í fyrsta sinn barst ekkert tilboð í verkið, í annað sinn var öllum tilboðum hafnað þar sem þau voru öll langt yfir áætluðum verktakakostnaði. Tilboð voru opnuð í þriðja sinn í desember 2023. Samið var VBF Mjölni ehf. sem átt lægsta tilboðið í verkið. Vestfirskir verktakar ehf. eru undirverktakar og sjá um brúarsmíðina.

Brúarsmíði í Kollafirði.

Páll segir helstu áskoranir verkefnisins þær að framkvæmdir eru takmarkaðar meðan á stangveiðitímabili stendur, frá 20. júní og fram í miðjan september en á því tímabili er jarðvegsvinna í eða við árfarveg ekki heimil. „Við þurfum því að vera komnir upp úr árfarveginum áður en veiðitímabilið byrjar.“ Önnur áskorun er fjarlægð frá þéttbýli. „Steypan kemur til dæmis alla leið úr Borgarnesi og það er vandasamt að halda steypunni góðri á þessari löngu leið. Það þurfa allar tímasetningar að standast.“

Gert er ráð fyrir að smíði brúarinnar yfir Fjarðarhornsá verði lokið í desember á þessu ári en smíði brúar og vegagerð við Skálmardalsá í desember 2025. Gömlu  brýrnar verða rifnar og fjarlægðar.

Hér er stutt myndband af framkvæmdunum og spjall við Pál sem Haukur Sigurðsson ljósmyndari tók á dögunum:

DEILA