Fjallið

Mig dreymir um fjallsins dýrð á efstu tindum,

drottningu landsins í aldanna fumlausa tafli.

Þar skírist jörðin í himinsins hreinu lindum.

Hamrarnir syngja kliðmjúkt á organ í blænum.

Herðum það lyftir í blámann af öllu afli,

en eilífðin stendur kyrr í hlíðunum grænum.

Upphafna kyrrðin ríkir við fjallsins rætur

og ró og friður kennist í öllu þess fasi.

Býlin í dalnum auðmjúk gefa því gætur.

Í göfuga hugsun það hverfir fánýtu masi.

Þú leitar á andvaka hug minn á niðdimmri nóttu.

Nálægð þín finnst mjög glöggt í sortanum þunga.

Er raustirnar hljóðna og sofa á úrsvalri óttu,

alvald þitt vakir stórt yfir byggðinni smáu.

Jörðin er horfin. Þó breiðist þín jökulbunga

björt eins og lín móti stjörnuvegunum háu.

Þá talarðu kraftarins hljóða og máttuga máli,

sem megnar að sigra flest, er vér kennum við ótta,

og andann þú leiðir frá auðævum heimsins og prjáli

og áhyggjur hversdagsins margar þú rekur á flótta.

En veikara ertu í sambýli þínu við sjóinnn.

Í sífellu malar óvægið brim þínar rætur.

Og ofar rýfur hafáttin opinn móinn

með ólmum flaumi, kaldsaman snemmvetrardaginn.

Í örmum hafsins, öndvert við þína fætur,

aukast nú þangi, komnir í fangbrögð við sæinn

klettar, sem trónuðu áður traustir í hlíðum

með tignarfas, líkt og stoltir óðalsbændur,

og horfðu við djúpinu hreyknir, með svip svo blíðum,

hátignarlegir á snið eins og konungsfrændur.

Mislynt ertu í meira lagi á vetrum.

Mjöllin hleðst í sköflum á þínar kinnar.

Þá bólgnar þín ásýnd, svo skakkar mörgum metrum,  

mökkinn skefur í veðrum um allar hlíðar.

Þá lætur þú sterklega getið stórmennsku þinnar

og stefnir í byggðina harðviðri frosts og hríðar

og snjóskriður æða hvæsandi úr hvilftum og giljum

og kveða sér hljóðs á dimmum alfaraleiðum

og loka vegum með fannhvítum, þöglum þiljum

og þekja hvern troðning á fáförnum, afskekktum  heiðum.

Um vornótt ég sá þig ljúflega skipta liti.

Logandi gyllti miðnætursól þína tinda.

Þú sveipaðist fagurrauðu geislagliti

og gagnsæjum, heillandi, svifléttum töfrahjúpi.

Þá vildi ég heitasta draum minn við þig binda

og vonir míns hjarta leggja að þínum núpi.

Á þessari nóttu þú sefaðir hulda harminn, 

sem höfugur lifir og vakir í mínum óði,

en nóttleysa gældi svöl við svefnugan hvarm minn

og svæfði hvert angur með blíðu vögguljóði.

Í hverfulli veröld óbreytt og stöðugt þú stendur.

Styrkur þinn varir í trássi við smámuni dagsins.

Þótt skorti þig andlit og fætur, augu og hendur,

er ásýnd þín sífellt ný úr fjölmörgum áttum.

Þú tónar um daga afbrigði ósamda lagsins

og andar látlaust þöglasta sönginn á náttum.

Ljáðu mér afl þitt og æðruleysi í raunum,

ófeigi kraftur, sem hvorki dvín eða bilar.

Ég fæ þér hollustu mína og líf að launum,

uns loks mér um síðir í fang Hins almáttka skilar. 

sr. Gunnar Björnsson , pastor emeritus.

DEILA