Fagurserkur er frekar hávaxinn fiskur, stuttvaxinn og þunnvaxinn. Spyrðustæði er stutt og frekar þykkt. Kjaftur er skásettur og neðri skoltur örlítið lengri en sá efri. Á tálknaloki eru tveir gaddar. Augu eru stór.
Kjálkatennur eru örsmáar í breiðri röð á efri skolti en í mjórri röð á neðri skolti. Tennur eru á plógbeini og gómbeinum. Hreistur er smátt. Fagurserkur Iíkist rauðserk talsvert í útliti og lit en þekkist frá honum m.a. í því að hann er grannvaxnari, augu eru minni og fjöldi geisla í hinum ýmsu uggum er annar. Þá er fagurserkur ekki eins bogadreginn á baki og rauðserkur. Fagurserkur nær allt að 70 cm lengd. Í mars 1983 veiddist einn 50 cm í Skerjadjúpi.
Fagurserkur er skærrauður eða appelsínugulur á lit á baki, uggum, efri hluta hauss, í kjafti og á tálknalokum, bleikur á hliðum og með silfurslikju. Lífhimna er svört.
Heimkynni fagurserks eru í norðaustanverðu Atlantshafi frá Marokkó, Kanaríeyjum, Asóreyjum, Madeira, Spáni og Portúgal og hann hefur fundist allt norður til Íslandsmiða og Grænlandshafs. Þá verður hans vart við Suður-Afríku og í norðvestanverðu Atlantshafi frá Maine til Mexíkóflóa. Einnig finnst hann við Japan, Ástralíu, Nýja-Sjáland og Chile.
Hér við land veiddist fagurserkur fyrst í september árið 1960 á 360 m dýpi suðvestur af Vestmannaeyjum (63°07’N, 20°50’V). Þetta var 45 cm löng hrygna. Síðan hefur hann veiðst nokkrum sinnum á svæðinu frá Litladjúpi undan Suðausturlandi, suður og vestur á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Frá 1989 hefur hann veiðst næstum árlega hér við land og árið 1998 veiddust a.m.k. fjórir. Hann virðist ekki vera eins sjaldséður á síðari árum og rauðserkur. Fiskar þeir sem hér hafa veiðst voru 23-50 cm langir.
Fagurserkur er botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 128 -816 m dýpi á Íslandsmiðum en er sennilega algengastur á 400- 800 m dýpi. Hann hefur veiðst allt niður á 1300 m dýpi. Fæða er einkum fiskar, krabbadýr og smokkfiskur.
Af vefsíðunni hafogvatn.is