Dagana 6.-8. júní verður opnaður fyrri áfangi sýningar Baskaseturs í gömlu síldartönkunum á Djúpavík.
Af þessu tilefni verður dagskrá í Djúpavík tengd sögu Baska á Íslandi í samvinnu við samstafsaðila í Baskahéruðum Spánar og Frakklands. Albaola á Spáni og Haizebegi í Frakklandi standa ásamt Baskavinafélaginu á Íslandi að viðburðum í löndunum þremur, hylla baskneskan menningararf og stofna Baskasetur í Djúpavík.
Háskólasetur Vestfjarða kemur að verkefninu með áherslu á sambúð manns og sjávar og sjálfbærni. Baskavinafélagið á einnig í samstarfi við listasýninguna the Factory í Djúpavík og við Strandagaldur og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu.
Fimmtudaginn 6. júní verður opin vinnustofa í gerð hljóðfæra úr rusli í Djúpavík. Markmiðið er að stuðla að sjálfbærni og endurnýtingu meðfram því að tengja við baskneskan menningararf. Sjávarnytjar eru hluti af verkefninu. Intelligent Instruments Lab við Háskóla Íslands og Baskavinafélagið sjá um vinnustofuna í samstarfi við listasýninguna the Factory í Djúpavík. Intelligent Instruments Lab er þverfagleg rannsóknarstofa sem skoðar hlutverk gervigreindar í nýjum hljóðfærum og hefur unnið með hið baskneska hljóðfæri txalaparta og haldið vinnustofur á Ströndum í þeim hljóðfæraleik. Í lok dags verður eftirlíkingu af baskneskum léttabát, „txalupa“ komið fyrir á sýningunni í síldartankinum. Vinnustofa í smíði á léttabátnum verður dagana á undan hjá Iðunni fræðslusetri í Reykjavík.
Föstudaginn 7. júní og laugardaginn 8. júní verður málþing á ensku í Djúpavík um sögu Baska á Íslandi að viðstöddum Guillaume Bazard sendiherra Frakklands og José Carlos Esteso Lema sendifulltrúa Spánar. Markmið málþingsins er að stuðla að frekari þekkingu íslenskra vísindamanna og þeirra sem starfa í skapandi geirum á sögu Baska á Íslandi og tengja saman íslenskan og baskneskan menningararf.