Bambahús og Sorpa hljóta Kuðunginn

Umhverfis-, orku-  og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, veitti í dag fyrirtækjunum Sorpu og Bambahúsum Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári.

Í rökstuðningi sínum fyrir valinu á Bambahúsum bendir dómnefndin á að Bambahús hafi sýnt eftirtektarvert frumkvæði með því að nýta hráefni sem annars hefði verið fargað. Fyrir tilstilli Bambahúsa hafði bambar, sem áður voru fluttir úr landi, þeir brenndir eða þeim fargað með tilheyrandi úrgangsmyndun og  losun gróðurhúsalofttegunda fengið nýtt hlutverk sem fjölnota ylhús.

Vörur fyrirtækisins tali beint inn í hringrásarhagkerfið og sýni og sanni eina ferðina enn að það sem er úrgangur í augum eins getur verið gull í augum annars. Bambahús hafi í samstarfi við önnur fyrirtæki, fært leik- og grunnskólum víða um land fjölnota ylhús að gjöf, sem nýtast bæði til kennslu og ræktunar matvæla.

Er dómnefndin sammála um að notkun bambahúsanna feli í sér fræðslugildi um mikilvægi hringrásarhagkerfisins, ræktunar og sjálfbærni og stuðli að viðhorfsbreytingu sem geti falið í sér umtalsverð afleidd jákvæð umhverfisáhrif umfram þau sem felast í gerð húsanna sjálfra. Bambahús hafi sýnt mikla samfélagsábyrgð með því að rækta framtíðina og sé ávöxturinn af starfsemi fyrirtækisins mikill. 

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu á Sorpu sem handhafa Kuðungsins 2023 kemur fram að Sorpa hafi í samstarfi við almenning lyft grettistaki í flokkun lífræns úrgangs árið 2023.  Sorpa hafi á árinu ráðist í mikilvæg umbóta verkefni sem sneru meðal annars að innleiðingu samræmds flokkunarkerfis og sérsöfnun matvæla á höfuðborgarsvæðinu.

Með sérsöfnun matarleifa hafi verið stigið stórt skref í samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, sem hafi skilað gríðarlegum umhverfisávinningi.  

DEILA