Átt þú í sambandserfiðleikum?

Á undanförnum árum höfum við í Framsókn talað mikið um mikilvægi fjarskiptainnviða um allt land. Í nútímasamfélagi skipta fjarskipti miklu máli en sem dæmi um fjarskipti má nefna farsímasamband, ljósleiðarasamband og Tetra samband. Á föstudag var ég málshefjandi á sérstakri umræðu um fjarskipti í dreifbýli á Alþingi, við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem fer með þann málaflokk.

Misjafnlega gott samband

Það er ekkert launungarmál að hér á landi er símasamband mjög misjafnlega gott og á sumum stöðum er það einfaldlega ekki til staðar. Eitt af mínum fyrstu verkum eftir að ég settist á þing var að óska eftir upplýsingum um fjölda lögheimila í dreifbýli sem hefðu stopult eða ekkert símasamband. Niðurstaðan var að um 1% var algjörlega utan símasambands og að fjöldi heimila byggju við stopult símasamband. Í kjölfarið var gerður samningur milli Neyðarlínunnar og fjarskiptafyrirtækjanna þar sem samið var um uppbyggingu á farsímasendum utan markaðssvæða. Þetta skiptir máli því fjarskiptakerfin eru farin að verða stærri hluti af daglegu lífi okkar. Sem dæmi má taka rafræn skilríki. Rafræn skilríki eru orðin stór hluti af hinum tæknivædda hluta lífs okkar, eins og Ísland.is, en ef símasamband er ekki til staðar þá virka skilríkin ekki og því þarf fólk að fara heiman frá sér til að nota þau. 

Öryggi fyrir alla

Farsímasamband skiptir sérstaklega miklu máli þegar kemur að öryggi. Reglulega fáum við fréttir af slysum eða atvikum þar sem fólk var utan farsímasambands þegar það nauðsynlega þurfti á því að halda. Má þar nefna þegar bílar bila eða það verður slys á þeim vegaköflum þar sem ekki er símasamband og þeir kaflar eru alltof margir víða um land. Við höfum einnig mörg dæmi þess að fólk sem er í fjallgöngu, er að veiða á heiðum eða í leitum á haustin í öllum veðrum villist. Það er mikilvægt fyrir öryggi einstaklinga og fyrir uppbyggingu dreifðari samfélaga að góðir fjarskiptainnviðir séu til staðar á sem flestum stöðum um allt land en fjarskipti eru ein af grundvallarstoðunum í nútímasamfélagi. 

Næstu skref

Það er ljóst að byggja þarf fjarskiptainnviðina hraðar upp hér á landi en við höfum gert hingað til, í samræmi við þá hröðu þróun sem hefur verið hvað varðar tækni á síðustu árum. Í svari ráðherra kom fram að ætlunin sé að fara í átak til þess að bæta samband á 100 heimilum og vinnustöðum sem eiga í dag ekki kost á farneti eða að það uppfylli ekki lágmarksskilyrði um alþjónustu. Í þetta verkefni eiga að fara 50 milljónir á þessu ári. Ég fagna þessu skrefi en ég tel þó að þetta sé bara eitt mikilvægt skref í langri vegferð og ég mun halda áfram að þrýsta á betra fjarskiptasamband um allt land. Það skiptir fólk gríðarlega miklu máli að geta verið í farsímasambandi heima hjá sér og það skiptir máli að geta náð sambandi þegar eitthvað kemur uppá við aksturinn eða uppi á heiðinni. Þetta er mikilvægt öryggismál á sama tíma og það styður við hinar dreifðari byggðir.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir

Höfundur er þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

DEILA