Alþingi samþykkti samhljóða á þriðjudaginn þingsályktun um rannsókn á snjóflóðinu í Súðavík í jan+uar 1995. Allir 38 viðstaddir þingmenn samþykktu tillöguna sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis flutti. Forseti Alþingis skipar nefndina.
Skipa skal rannsóknarnefnd þriggja einstaklinga til að rannsaka málsatvik í tengslum við snjóflóð sem féll í Súðavík 16. janúar 1995.
Rannsóknarnefndin dragi saman og útbúi til birtingar upplýsingar um málsatvik í því augnamiði að varpa ljósi á ákvarðanir og verklag stjórnvalda þar sem gerð verði grein fyrir:
1. hvernig staðið var að ákvörðunum um snjóflóðavarnir, hvernig skipulagi byggðar var háttað með tilliti til snjóflóðahættu, gerð hættumats og hvernig staðið var að upplýsingagjöf um snjóflóðahættu til íbúa Súðavíkur,
2. fyrirkomulagi og framkvæmd almannavarnaaðgerða í aðdraganda snjóflóðsins, í kjölfar þess og þar til hættuástandi var aflétt,
3. eftirfylgni stjórnvalda í kjölfar snjóflóðsins.
Rannsókninni ljúki svo fljótt sem verða má og eigi síðar en einu ári eftir skipun rannsóknarnefndarinnar.
Forsaga málsins er sú að 6. júní 2023 barst stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bréf frá forsætisráðherra. Í því kom fram að ráðherra hefði borist erindi frá lögmannsstofu fyrir hönd aðstandenda og eftirlifandi ættingja þeirra fjórtán einstaklinga sem létust í snjóflóðinu. Í erindinu var farið þess á leit að rannsókn færi fram á þætti hins opinbera í snjóflóðinu, til að mynda með skipan rannsóknarnefndar á grundvelli laga um rannsóknarnefndir. Í bréfi ráðherra til nefndarinnar kom fram að ekki væri að finna í lögum sérstaka heimild til handa forsætisráðherra eða öðrum ráðherrum til að ráðast í rannsókn af þessu tagi. Ráðherra hafi því ákveðið að vísa erindinu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem tók málið til umfjöllunar.
Í greinargerð nefndarinnar sem fylgdi með þingályktunartillögunni segir:
„Að lokinni yfirferð sinni er það mat stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að mikilvægt sé að fram fari hlutlæg og óháð rannsókn á þeim atburðum sem hér eru til umfjöllunar. Ljóst er, eins og rakið verður að aftan, að ekki fór fram óhlutdræg rannsókn í kjölfar þeirra sviplegu atburða sem áttu sér stað í Súðavík 16. janúar 1995. Hefur það skapað tortryggni og vantraust gagnvart stjórnvöldum sem mikilvægt er að eyða. Taka þarf til rannsóknar málsatvik svo að leiða megi í ljós hvernig staðið var að ákvörðunum og verklagi stjórnvalda í tengslum við snjóflóðið í Súðavík. Á grundvelli slíkrar athugunar geta Alþingi og stjórnvöld eftir atvikum metið hvort dreginn hafi verið lærdómur af atburðunum og hvort úrbóta sé þörf. Slík athugun hefur einnig það hlutverk að svara ákalli um óhlutdræga rannsókn á málsatvikum sem hefur verið uppi frá því að atburðirnir urðu. Nefndin vill taka fram að við umfjöllun málsins hefur hún ekki orðið þess áskynja að neitt saknæmt hafi átt sér stað.“