Áhyggjulaust ævikvöld

Er það sem við öll vonumst eftir að ævistarfi loknu – sem mörg okkar hafa þurft að taka með trukki í velferðarríkinu Íslandi. þar sem haldið er í vonalausa hagstjórn eins og um trúarbrögð væri að ræða þó hún lengst af hafi aðeins skilað fáum ríkulegri velsæld.

En hvernig hugsum við okkur áhyggjulaust ævikvöld ?

Það er jú að hafa öruggt þak yfir höfuðið og afkomu sem tryggir mannsæmandi líf á síðasta skeiði ævinnar. Þetta teljast mjög hóflegar kröfur eftir áratuga strit á íslenskum vinnumarkaði.

Fólk vill líka svo gjarnan getað tekið á móti sínum afkomendum á eigin heimili sem veitandi gestgjafar og að vera fjárhagslega fært um að gleðja sína með gjöfum þegar við á án þess að þurfa að neita sér um nauðsynjar til að dekka þann kostnað.

Ef ekki er hægt að búa svo að fólki hér á landi á efri árum svo það geti lifað með reisn og notið sólarlagsins þá er ekki hægt að tala um að við búum í velferðarríki sem telst með þeim auðugustu í heimi.

Margir kvíða efri árunum – einkum þeir sem búið hafa við bölmóð og afkomukvíða um langt skeið.

Bágar aðstæður leiða af sér vandamál ýmiss konar sem geta þegar fram í sækir orsakað aukið álag á heilbrigðis og félagsþjónustu. Svo vesöld og kröm getur aldrei verið þjóðhagslega hagkvæm.

Eldri borgarar forðast í lengstu lög að ganga í björg félagsþjónustunnar og þurfa í framhaldinu að lúta kæfandi forræðishyggju mistækra starfsmanna hennar. Mörgum finnst þá botninum náð þegar farið er að koma fram við fólk eins og óvita – fólk sem hefur þurft að hafa fyrir sínu allar götur.

Fólk glatar ekki tilfinningunum þó árin færist yfir – síður en svo – þær sitja í sálu og sinni sem fyrr, breytilegar eins og hjá öllum öðrum – með heilbrigðari sýn á efri árum því með árunum vex viskan, skynsemin og þroskinn sem eldri borgarar vilja eðlilega láta afkomendur sína njóta góðs af – þannig lærir hver kynslóðin af annarri.

Við vitum það sem komin eru á virðulegan aldur að þó ellikerling narti í ytra byrgðið að þá finnst okkur það innra alltaf jafn ferskt. Húmorinn, gáskinn og gleðin eru enn til staðar, stundum vantar bara einhverja til að deila þessu með – þessir lífsnauðsynlegu kostir vilja nefnilega rykfalla þegar fólk býr lengi við félagslega einangrun.

Margir eru svo lánsamir að eiga sér lífsförunaut að deila með bæði því sæta og súra – það er örugglega mikil blessun og gleði sem fylgir því að hafa ástina sér við hlið í blíðu og stríðu – þar sem fullkomið traust og virðing ríkir milli tveggja einstaklinga sem tilbúnir eru að leiða hvort annað yfir þröskulda lífsins – með velferð hvors annars að leiðarljósi – svikalaust.

Traustur maki er vissulega gulls ígildi – en ekki nauðsynlegur því einyrkjar geta líka lifað góðu lífi þó þeir eigi ekki þess kost að krullað saman tásum í félagsskap ástkærra maka á frostköldum vetrarkvöldum.

Manneskja sem býr ein þarf ekki endilega að vera einmanna – það er hægt að finna til einmannaleika í félagsskap sem fólk sem finnur sig ekki í – svo allir geta orðið einmanna – ekki bara einbúinn.

Það er enginn heimsendir þó lífið sé ekki alltaf eins og best verður á kosið því lífið hefur upp á svo margt að bjóða – búi fólk við þá möguleika að geta gripið tækifærin þegar þau gefast og þá fengið að blómstra með sínum áhugamálum og hæfileikum.

Félagsskapur er okkur öllum nauðsynlegur af og til burt sé frá aldri – öll höfum við þörf fyrir bros, hlýju og velvilja stöku sinnum – en við viljum um fram allt að það sé ekta – ekki komið frá fólki sem fær borgað fyrir sýnda vinsemd.

Fólk vill ekki láta leiða sig á bása og skammta sér félagsskap – það vill hafa valið – það vill geta deilt skoðunum og áhugamálum og sótt sér fróðleik og viksu í félagsskap sem það kýs sjálft.

Forræðishyggjan í þjóðfélaginu er orðin svolítið yfirþyrmandi. það er búið að jaðarsetja ansi marga hópa sem allir eiga að lúta lögmálum góða fólksins – sem gasprar sum hvert út í eitt uppblásið af eigin ágæti og lætur þar við sitja eftir að hafa fengið að láta ljós sitt skína.

Jaðarsetning er ekki af hinu góða – um leið og einhver er jaðarsettur lokast á hann fjölmargar dyr – viðkomandi verður annars flokks manneskja sem fær aðeins pláss á afmörkuðum stöðum upp á náð og miskun.

Það er ekki til nein uppskrift sem segir til um hvernig eldri borgarar eigi að vera og haga sér frekar en fyrir aðra þjóðfélagshópa þó sumir hafi á því ákveðnar skoðanir.

Ellibelgir eiga að fá að vera þeir sjálfir – hafa skoðanir, rífa kjaft og klæða sig eins og þeim sýnist.

Eldmóðurinn lifir innra með þeim – en hann hefur verið bældur niður með fordómum og niðurdrepandi forræðishyggju. – Þeir hafa dregið sig inn í skel af því stöðugt er klifað á að þeir séu byrði – íþyngjandi vandamál – en í sjúkdómsvæddu þjóðfélagi verða ansi margir að vandamáli – ekki bara eldri borgarar.

Það er hægt að gera vandamál úr öllu – líka stálheilbrigðu fólki ef ásetningur er fyrir hendi.

Það virðist stundum vera tilhneigingin að berja fólk niður með lítilsvirðandi framkomu fremur en að stappa stálinu og leyfa því að njóta sín þar sem hæfileikarnir liggja – mögulega fleirum en viðkomandi til góðs.

 það kallast óttastjórnun og kúgun þegar stöðugt er þrengt að fólki.

En auðvitað erum við gömlu brýnin eins misjöfn og við erum mörg. Á meðan sumir kjósa að rífa kjaft af illri nauðsyn eru aðrir sem vilja hafa það náðugt í ellinni og þá kannski að dúlla sér við að safna frímerkjum og flosa. Það er sannarlega gott og blessað þegar fólk getur áhyggjulaust með hreina samvisku sökkt sér niður í sín hugðarefni. Því hljótum við að fagna.

Þegar ég var þrítug þá fannst mér ellin mikil ógn – en smá saman rjátlaðist af mér þessi ótti og um fimmtugt var ég nánast alveg búin að yfirstíga hann  – ég er nokkuð viss um að magur kannast við þennan ótta – það má því segja að ellin fylgi okkur flestum sem skuggin nánast allt okkar líf eins og hnýsin illa innrætt slúðurkerling.

Nú þegar ég er rétt að verða löggiltur elllilífeyrisþegi þá finnst mér ég geta litið með stolti yfir ævistarfið.

Ég er dugleg, samviskusöm, fjölhæf og velvirk – þessara eiginleika minna naut íslenskur vinnumarkaður í áratugi – það kom mér því á óvart þegar það rann upp fyrir mér þá orðin öryrki að búið væri að dæma mig til að lifa af hungurlús ævina á enda sem betlari væri.

Nú eru mínar mánaðartekjur 404.379 kr og þá er allt innifalið – heimilisuppbót, húsaleigubætur og lífeyrissjóður og ég get átt von á lækkun vegna skerðingar á húsaleigubótum.

Með þessar tekjur er ekki hægt að láta stóra drauma rætast – aðeins vona að maður haldi sjó og á meðan ég bíð eftir að réttlætið rati til mín eftir meira en áratuga baráttu við kerfið þá læt ég mig dreyma um hversdagsleikann – kaffi og ristað brauð á eigin heimili, kótilettur og notalegt kúr fyrir framan sjónvarpið.

Hversdagsleikinn er vanmetinn – það er hægt að gera svo margt til að lífga upp á hann með litlum tilkostnaði – þegar ekkert annað er í boði.

Lifið heil !

Og verið góð hvert við annað á þessum síðustu og verstu.

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

DEILA