61 árs leit ber loksins árangur !

Á myndinnin eru talið frá vinstri: Halldór V. Magnússon, framkvæmdastjóri veitusviðs Elías Jónatansson, orkubússtjóri Sölvi R. Sólbergsson, framkvæmdastjóri orkusviðs Elena Dís Víðisdóttir, verkefnastjóri á orkusviði

Jarðhitaleit hefur staðið yfir með löngum hléum í Skutulsfirði allt frá árinu 1963, en sagan verður ekki öll rakin hér.  Fljótlega beindist athyglin að Tungudal vegna hærri hitastiguls og volgs vatnskerfis sem þar fannst.

Á árunum 1997 og 1998 voru hitastigulsholur boraðar víða, en niðurstöður bentu til að vænlegast væri að leita áfram í Tungudal.  Djúpar holur voru boraðar árin 1975-1977, 1999 og 2008 án þess að árangur næðist í leitinni, en vonir stóðu til að finna jafnvel yfir um og yfir 65°C heitt vatn.

Leitarátak frá 2018
Árið 2018 fékk Orkubúið svo ÍSOR til að vinna áætlun um leitarátak á Vestfjörðum í grennd við rafkyntar hitaveitur félagsins.  Búið er að leita í Bolungarvík og á Flateyri, án árangurs, en í Súgandafirði fannst aukið vatnsmagn að Laugum, þar sem fyrir var jarðhitahola í nýtingu.  Á Patreksfirði og á Ísafirði hefur leit staðið yfir síðasta árið og hafa þegar fundist 25 l/sek af 25°C heitu vatni á Patreksfirði.  Fyrir hönd Orkubúsins hefur Sölvi R. Sólbergsson framkvæmdastjóri orkusviðs borið hitann og þungann af skipulagningu jarðhitaleitarinnar í gegnum árin og gerir enn.  Hann er því kampakátur þessa dagana eins og reyndar starfsmenn Orkubúsins almennt.

Leitin ber árangur
Sunnudaginn 26. maí urðu svo þau stóru tíðindi að við borun rannsóknarholu í Tungudal þveraði borinn heita vatnsæð á 482 m dýpi og reyndist hitastigið vera um 58°C.

Jafnvel þótt ekki sé búið að staðfesta nægilegt magn af heitu vatni fyrir Ísafjörð þá er nú staðfest að a.m.k. 58°C heitt vatn finnst í Tungudal.  Fyrsta mat hefur gefið til kynna að um sé að ræða a.m.k. 10 l/sek af 58 °C heitu vatni, en vonir standa til að magnið sé meira. 

Eftir 61 árs leit með hléum, þá eru þetta frábærar fréttir.  Holan sem um ræðir nefnist TD-9 og var upphaflega ætlunin að hún færi á 700 m dýpi.  Nú stendur yfir víkkun á holunni, en næst verður hún fóðruð niður á tæpa 300 m, til að draga úr innrennsli kaldara vatns í holuna og undirbúa nýtingu hennar sem vinnsluholu.  Því næst verður holan dýpkuð niður á allt að 700 m dýpi.  Þá verður lagt mat á hversu mikið vatnsmagn er hugsanlegt að nýta úr holunni og hitastig við frekari dælingu mælt. 

Verkefnin framundan
Orkubúið hefur þegar hafið vinnu við að skoða mögulegar sviðsmyndir vegna nýtingar jarðhitans, en þær munu m.a. byggja á niðurstöðum hitastigs-,  gæða- og magnmælinga sem gerðar verða á næstu vikum.  Þeirra mælinga er beðið með mikilli eftirvæntingu.  Mikil framþróun hefur orðið á síðustu árum í nýtingu á heitu vatni af lægra hitastigi, þ.e. vatni sem er innan við 50 – 60°C heitt, sem gjarnan er þá nýtt með varmadælum.  Sú fjárfesting sem til er fyrir í tvöföldum veitukerfum og dælukerfum rafkyntra hitaveitna Orkubúsins getur spilað mikilvægt hlutverk í að hægt sé að nýta jarðhitann á hagkvæman hátt.

Þegar niðurstöður um afköst holunnar liggja fyrir fer í hönd valkostagreining á búnaði, hönnunarvinna, útreikningur á hagkvæmni og áætlanagerð um mögulegan framgang verkefnisins. 

Ísafirði, 30. maí 2024
Elías Jónatansson, orkubússtjóri

DEILA