Ég hef verið skólameistari Menntaskólans á Ísafirði í rúm 2 ár og það hefur verið skemmtilegt að fá að upplifa að stjórna menntaskólanum sem ég útskrifaðist sjálf frá. Reyndar má segja að MÍ hafi nánast alla tíð verið stór hluti af lífi mínu því foreldrar mínir, Guðrún Stefánsdóttir og Tryggvi Sigtryggsson, unnu þar lengi.
Í MÍ starfa 47 starfsmenn og nemendur eru 450. Af þeim eru 170 nemendur í dagskóla en síðan erum við með stóran hóp nemenda í starfs- og verknámi með vinnu og loks fjöldann allan af fjarnemum en allir bóklegir áfangar eru í boði í fjarnámi. Fjarnám var hluti af viðbragði skólans þegar nemendum fækkaði við styttingu náms til stúdentsprófs og hefur heldur betur vaxið með árunum.
Þó MÍ sé ekki mjög stór framhaldsskóli bjóðum við upp á fjölbreytt námsframboð sem við leggjum mikla áherslu á enda skólinn mikilvæg stoð í fjórðungnum. Núna bjóðum við upp á 11 starfs- og verknámsbrautir, iðnmeistaranám, starfsbraut og fjórar stúdentsprófsbrautir auk íþróttasviðs. Í haust förum við síðan af stað með hafbraut sem hefur verið í smíðum hjá okkur í rúmt ár. Það er þó ekki nóg að bjóða upp á fjölbreytt nám, við þurfum líka að geta boðið nemendum okkar upp á góðar námsaðstæður. Í nokkur ár höfum við barist fyrir bættri verknámsaðstöðu sem er nú loksins að verða að veruleika. Starfs- og verknámsnemum hefur fjölgað undanfarin ár og gaman að segja frá því að 51% dagskólanemenda okkar eru í slíku námi. Áformað er að byggja 1.000 fm byggingu við skólann og var mikill gleðidagur þann 4. apríl sl. þegar Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra kom og undirritaði samning við sveitarfélögin hér við Djúp, Árneshrepp og Reykhóla um bygginguna. Stefnt er að því að skóflustungan verði tekin í haust. Velvilji sveitarfélaganna sem og velvilji margra fyrirtækja og stofnana í nærsamfélagi skólans skiptir mjög miklu máli. Skólinn skiptir svæðið okkar líka miklu máli og við þurfum öll að sameinast um að hlúa að honum og styrkja svo hann haldi áfram að eflast og dafna.
Það er ákaflega skemmtilegt vinnuumhverfi í MÍ. Starfsmannahópurinn er mjög öflugur og samheldinn og við erum ákaflega heppin með nemendur. Það er alltaf nóg um að vera í skólastarfinu og í mínu starfi er enginn dagur eins sem mér finnst mjög skemmtilegt. Nýlega fengum við viðurkenningu í Stofnun ársins sem fyrirmyndarstofnun en þar vorum við í 2. sæti meðalstórra ríkisstofnana. Sömuleiðis fengum við nýlega tvo myndarlega styrki. Annars vegar til að setja upp sólarsellur við skólann til að nota í þverfaglegri kennslu og er það samstarfsverkefni með Bláma og Orkubúi Vestfjarða. Hins vegar fengum við styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála til að þróa verkefni sem snýr að inngildingu og fjölbreytileika sem er mikill innan skólans. Það er líka stutt síðan Sólrisa var haldin sem er mikil nemendahátíð haldin á hverju ári en henni lauk með uppsetningu leikfélagsins á Dýrunum í Hálsaskógi sem sló heldur betur í gegn. Á dögunum tóku síðan nokkrir nemendur þátt í Vörumessu Ungra frumkvöðla í Smáralind og þessa dagana eru nemendur og starfsfólk að taka þátt í nokkrum Erasmus+ verkefnum sem setja skemmtilegan svip á skólastarfið. Við erum nýbúin að vera með 27 manna hóp frá samstarfsskóla okkar í Frakklandi í heimsókn og erum að fara að taka á móti þremur dönskum nemendum frá samstarfsskóla okkar í Danmörku sem munu fara í starfsnám hjá byggingafyrirtækjum og Dokkunni. Starfsbrautin okkar heldur síðan eftir helgi í námsferð til Kaupmannahafnar.
Framundan eru merk tímamót í sögu skólans en í vor verða 50 ár liðin frá því að fyrstu nemendurnir útskrifuðust frá skólanum. Við ætlum að fagna þeim tímamótum við útskriftina í vor en daginn áður, föstudaginn 24. maí, ætlum við að bjóða gestum í heimsókn í skólann og líta inn í tíðaranda liðinna áratuga í nemendasögu skólans.
Það er því ekki hægt að segja annað en að það sé skemmtilegt að vera skólameistari. Ég verð að nota tækifærið hér og vekja athygli á efnilega og flotta unga fólkinu okkar sem sækir skólann og ég þreytist ekki á að segja að það séu forréttindi að fá að starfa með ungu fólki á þeim miklu mótunarárum sem unglingsár eru. Fyrir okkur sem samfélag er ákaflega mikilvægt að við hlúum vel að unga fólkinu okkar og tryggjum þeim góða aðstöðu til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Þar getum við gert betur og sem dæmi hafa nemendur hér á framhaldsskólaaldri enga aðstöðu til að hittast í utan skóla og ég skora á sveitarfélögin á svæðinu að bæta úr því.
Núna erum við Fjölnir Ásbjörnsson eiginmaður minn og synir okkar fjórir búin að búa hér fyrir vestan í bráðum 16 ár, fyrst í Holti í Önundarfirði og síðustu 9 árin á Ísafirði. Hér líður okkur ákaflega vel og njótum þess að hafa fjölskyldu og vini nálægt okkur. Fjölskyldulífið hefur lengi litast af körfubolta en strákarnir okkar hafa allir æft körfubolta og tveir þeir yngstu eru enn að æfa á fullu með körfuknattleiksdeild Vestra. Ég er búin að vera í barna- og unglingaráði í körfunni mjög lengi sem er gefandi starf og í gegnum körfuna hef ég kynnst fullt af nýju fólki og eignast marga góða vini. Ég hvet alla foreldra til að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi í kringum börnin sín því barna- og unglingastarf þarf svo sannarlega á sjálfboðaliðum að halda.
Framundan eru skemmtileg tímamót í lífi okkar hjóna en yngsti sonur okkar fermist eftir rúma viku. Við hlökkum mikið til þó það sé nokkuð sérstök tilfinning að fermingum í fjölskyldunni sé þar með lokið. Eldri strákarnir okkar þrír hafa allir fermst í Holtskirkju, sem er ein af fallegustu kirkjum landsins að mínu mati, og pabbi þeirra hefur fermt þá. Þannig vill sá yngsti líka fermast og við bíðum spennt eftir að fermingardagurinn renni upp.