Viðbrögð við framandi lífverum á Íslandi krefjast samþættingar líf- og hegðunarvísinda

Höfundur, Theresa Henke flundrusérfræðingur og Kolbeinn Hrólfsson líffræðingur á flundruveiðum.

Ágengar framandi lífverur eru eitt af stóru umhverfisvandamálum heimsins og ein helsta ástæða taps á líffræðilegri fjölbreytni. Ágengar framandi lífverur valda þó ekki eingöngu vistfræðilegum skaða heldur hafa líka umtalsverð samfélagsleg og efnahagsleg áhrif1, og jafnvel áhrif á heilsu manna. Það er nú almennt viðurkennt að viðfangsefnið er þverfaglegt og að þverfagleg viðfangsefni kalla á samþættingu aðferðafræði ólíkra fræðigreina.

Fólk og framandi ágengar lífverur eru raunar órjúfanlega tengd, þar sem þáttur fólks er hluti af skilgreiningunni. Lífvera telst því ekki ágeng nema fólk hafi átt þátt í því að hún dreifist út fyrir náttúruleg heimkynni sín eða fjölgi óhóflega í náttúrulegum heimkynnum.  Áhugi og viðbrögð manna hafa líka mest um það að segja hvort tekst að hægja á frekari dreifingu eða stýra þeim framandi ágengu lífverum sem þegar hafa dreift sér um heiminn.

Ýmislegt hefur verið reynt til að sporna við dreifingu framandi ágengra lífvera en vísindafólk, stjórnvöld og stefnumótendur, hagaðilar og almenningur eru ekki alltaf sammála um hvernig best er að bregðast við. Vandinn magnast þegar kemur að lífverum í sjó, en þar er oft erfitt að meta uppruna lífveranna og þeirra verður seinna vart. Þegar lífvera hefur numið nýtt hafsvæði er nær ómögulegt að uppræta hana og einungis örfá dæmi á heimsvísu um að slíkt hafi verið reynt2.

Íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til viðbragða við framandi ágengum lífverum, bæði með þátttöku í alþjóðasamningum og með eigin lagasetningu, t.d. náttúruverndarlögum. Stefna stjórnvalda og viðbrögð hafa þó að mestu einskorðast við að reyna að koma í veg fyrir dreifingu lífveranna til landsins. Þetta hefur t.d. verið gert með því að banna innflutning á áhættu tegundum og með lögum um kjölfestuvatn. Alþjóðlega er talið að slíkar reglur geti hægt á dreifingu framandi lífvera en þær ná þó ekki að vega upp í móti aukningu í skipaferðum.

Þannig þurfum við að sætta okkur við að líklega verður ekki hægt að koma alveg í veg fyrir að framandi lífverur berist til landsins. Sem aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD) hefur Ísland líka skuldbundið sig til að vakta og stjórna framandi lífverum þar sem þær hasla sér völl. Stjórn lífvera  krefst upplýsinga um dreifingu þeirra og fjölda og þar er víða pottur brotinn á Íslandi. Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun og Náttúrustofur hafa lögbundið hlutverk til vöktunar á lífríki Íslands en þar þarf að forgangsraða takmörkuðu fjármagni. Í dag er einungis rekið eitt verkefni á landinu gagngert til að vakta framandi lífverur í sjó þó auðvitað komi upplýsingar um nýjar tegundir líka úr öðrum reglubundnum leiðöngrum.

Flestir rannsóknaleiðangrar í sjó voru hannaðir á öðrum forsendum og það eru fáir sýnatökustöðvar í strandsjó. Þar sem leiðöngrum sleppir geta aðrar og ódýrari aðferðir tekið við. Strandsjór er sóttur af fjölbreyttum nýtingaraðilum, strandveiðibátum, sjóstangaveiðibátum, stangveiðimönnum, ferðaþjónustuaðilum og tómstundabátum. Með því að virkja þessa aðila er hægt að ná meiri árangri með minna fjármagni.

Það er vel þekkt erlendis að hagaðilar og almenningur taki þátt í gagnasöfnun um framandi lífverur. Við höfum raunar líka ágætt dæmi um slíkt hér á Íslandi þar sem samstarf við stangveiðimenn bætti mikið við gagnagrunn um dreifingu flundru, sem er framandi fiskur á Íslandi og finnst helst í strandsjó og í árósum3. Slík verkefni eru oftast tímabundin. Til að hanna ótímabundin vöktunarverkefni er mikilvægt að einblína á þá þætti sem geta stuðlað að langtíma þátttöku almennings og jafnframt að stilla kostnaði við umsýslu og aðra vinnu í hóf. Hegðunarvísindi kynna okkur fyrir einföldum leiðum til að hvetja til æskilegrar hegðunar. Þannig er vísvitandi liðkað fyrir hegðun,  t.d. með sjálfkrafa skráningu, áberandi merkingum og jákvæðri römmun viðfangsefnisins. Andstætt liðkun er hugtakið „leðja“. Leðja eykur flækjustigið, t.d. þegar það er erfitt að finna réttan vettvang eða það þarf að hringja til að nálgast upplýsingar4.

Til að virkja almenning við að tilkynna framandi lífverur þarf vettvangur til tilkynninga að vera augljós, aðgengilegur og jafnvel skemmtilegur. Reynslan sýnir að áhugasamir eru tilbúnir til að krafsa sig í gegnum töluverða „leðju“ til að koma upplýsingum áleiðis til viðeigandi stofnana, þrátt fyrir að enginn augljós vettvangur sé til staðar. Með því að liðka fyrir tilkynningum mætti strax bæta skráningu framandi lífvera á Íslandi.

Sem dæmi má aftur taka flundru en dreifing hennar er ekki vöktuð í dag og hún kemur nær aldrei fram í reglubundnum leiðöngrum. Með hvetjandi auglýsingum á þeim stöðum þar sem líklegt er að flundru verði vart, með skýrri ástæðu vöktunar, og augljósum og auðsóttum vettvangi til tilkynninga, mætti kortleggja dreifingu og fjölda flundru á Íslandi með nær engum tilkostnaði. Slíkur gagnagrunnur yrði forsenda þess að meta breytingar á stofninum og áhrif á annað lífríki.

Flundra er vel rannsakað dæmi en auðvitað mætti sníða vöktunarverkefni byggð á hegðunarvísindum að fleiri framandi lífverum.

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir

Höfundur er nemandi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ í Bolungarvík

1. Kourantidou, M., ofl. (2022). The economic costs, management and regulation of biological invasions in the Nordic countries. Journal of Environmental Management, 324, 116374.

2. Simberloff, D. (2021). Maintenance management and eradication of established aquatic invaders. Hydrobiologia, 848, 2399-2420.

4. Henke, T., ofl. (2024) Familiarity doesn’t breed contempt; Stakeholder perceptions of an alien differ in time and space. NeoBiota. In press.

5. Thaler, R. H., & Sunstein, C. R. (2009). Nudge: Improving decisions about health, wealth, and happiness. Penguin.

DEILA