Hún verður vart eftirminnilegri, Fossavatnsgangan.
Einmitt nú, þegar ræstur er hópur afreksmanna vítt úr heiminum.
Sem þrá það eitt að hlaupa tugi kílómetra með spíru undir fótum og handleggina bundna stöfum.
Tímamótin í ár eru ekki fjöldinn sem skíðar.
Það vantar einn.
Hér eftir.
Ég er alinn upp við sögur af afreksmönnum. Til sjávar og sveita. Frá fjöru og bryggju til fjalls. Snjóþungir vetur með löngum nóttum og dögum þar sem bátabylgjan tók fréttatímum framar. Biðin. Síðan ekki orð um það meir.
Svo lægði og birti.
Þá fóru að flæða yfir fréttir af fólkinu sem hélt til fjalla.
Lundin léttist við upptalningu og lestur úrslita skíðamóta, að ekki sé talað um þegar flett var listum yfir afreksmenn fyrri ára.
Marta Bíbí, Karólína, Jón Karl, Haukur, Oddur, Gunnar, Ebbi, Kristinn Ben, Einar Valur, Árni Búbba, Hafsteinn, Silli svo einhverjir séu nefndir.
Stjörnurnar.
Í núi míns tíma tóku svo aðrar og miklu fleiri stjörnur við.
Í þá daga var eiginlega ekki búið að finna upp þetta nútíma hugtak sem ég nefndi áður.
Stjörnur.
Ekki þessar fjarlægu, sem dvelja alla daga á miðlum nútímans. Allan sólarhringinn.
Í þá daga sáust þær í Gamla eða Ísól og þú mættir þeim eins og ekkert væri í Aðalstrætinu eða í Iðunnarbúð.
Afrekssagan var við hvert fótmál. Það var óhjákvæmilegt að upplifa hana. Til Paradísar skíðamanna þurfti bókstaflega að keyra yfir hana. Um hlaðið á Grænagarði.
Það var úr mörgu að velja þegar leið að bílprófi. Ég heillaðist af afreksmanninum og langaði að kynnast honum. Hringdi og hann kom, um síðir.
Hann tók kennsluna föstum tökum, um stund.
Þegar traust var unnið urðu þetta stundir sagna. Sannra, en eins og ég komst að síðar, teygðra og allt að því loginna. Hvaða máli skiptir það. Enginn rétti tíu fingur upp til guðs í þessum ferðum.
Svo var það Trausti Bjarna sem gaf þessum haustrúntum líf með ökuskírteini sem enn gildir.
Þegar við áttum samleið undir merkjum Þorvarðar Kjerúlfs, urðum við sem einn. Hans sýn var sú að allir ættu annan möguleika, eða séns, eins og það heitir nú. Hvað sem á dundi var hugsunin ávallt sú sama. Menn voru að misstíga sig. Hrasa. Þeim þurfti að hjálpa á fætur aftur.
Það er ótrúlegur fjöldi, sem á þessari einföldu reglu hans, eiga mannorð sitt að þakka.
Jón úr Vör sagði réttilega að það þyrfti heilt þorp til þess að ala upp barn. Til eru hins vegar dæmi um menn sem einir og sér ala upp heilt þorp barna með ástríðu sinni.
Hundruðum saman renna nú í mark, skíðamennirnir. Fagna árangrinum. Fossavatnsgangan að baki.
Utan eins.
Þess kappfyllsta, sigursælasta, hjálpsamasta og umfram allt, hins besta.
Kitta Muggs.
Halldór Jónsson