Birt hefur verið í Stjórnartíðindum reglugerð um strandveiðar á komandi sumri og er hún nánast óbreytt frá síðasta ári.
Heimildir til strandveiða samkvæmt reglugerðinni skiptast á fjögur löndunarsvæði, sem eru:
- Eyja- og Miklaholtshreppur – Súðavíkurhreppur,
- Strandabyggð – Grýtubakkahreppur,
- Þingeyjarsveit – Djúpavogshreppur,
- Sveitarfélagið Hornafjörður – Borgarbyggð.
Skipi á strandveiðum er einungis heimilt að landa afla innan síns löndunarsvæðis.
Einungis er heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Enginn eigenda lögaðila sem á bát með strandveiðileyfi getur átt aðild að nema einu strandveiðileyfi. Einnig er tilgreint að í umsókn lögaðila um leyfi til strandveiða skulu koma fram upplýsingar um eignarhald á lögaðilanum.
Fiskistofa skal fella niður strandveiðileyfi fiskiskips, þá þegar, ef fyrir liggja gögn sem sýna fram á að skilyrði eru ekki uppfyllt.
- Veiðar hefjast fimmtudaginn 2. maí.
- Aflamagn verður ekki minna en 10 þúsund tonn af þorski.
- Veiðar eru heimilaðar fjóra daga í viku, mánudag – fimmtudags. Óheimilt að róa á uppstigningardag (9. maí), annan í hvítasunnu (20. maí), 17. júní og á frídegi verslunarmanna (5. ágúst).