Ólympíuhópur Íslands 

Í upphafi árs var myndaður Ólympíuhópur ÍSÍ sem samanstendur af afreksíþróttafólki sem hefur tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum í París í sumar eða hefur góða möguleika á að vinna sér þátttökurétt.

Nú þegar rúmlega 100 dagar eru þar til leikarnir hefjast, hafa verið gerðar breytingar á hópnum. Karlalandslið Íslands í handknattleik helltist úr lestinni eftir Evrópumeistaramótið og í febrúar og mars komu inn fjórir nýir keppendur; Baldvin Þór Magnússon, langhlaup, Erna Sóley Gunnarsdóttir, kúluvarp, Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, taekwondo og Svana Bjarnason, klifur.

Í Ólympíuhópi ÍSÍ er afreksíþróttafólk úr átta mismunandi íþróttagreinum, en í hverri íþróttagrein eru ólíkar leiðir til að tryggja sér þátttökurétt á leikunum. 

Anton Sveinn McKee, sund, er sá eini sem hefur nú þegar unnið sér inn þátttökurétt á leikana en miklar vonir eru bundnar við að Ísland muni eiga öflugan hóp íþróttafólks á leikunum.

Hópurinn í dag samanstendur af þrettán keppendum úr einstaklingsgreinum sem allir eiga góða möguleika á því að tryggja sér þátttökurétt. Að auki hefur ÍSÍ möguleika á því að fá úthlutað boðssætum, en slíkt mun koma í ljós í byrjun sumars.  

Í Ólympíuhópnum eru:
• Anton Sveinn McKee, sund 
• Baldvin Þór Magnússon, 5000m hlaup
• Eygló Fanndal Sturludóttir, lyftingar
• Erna Sóley Gunnarsdóttir, kúluvarp
• Guðlaug Edda Hannesdóttir, þríþraut
• Guðni Valur Guðnason, kringlukast
• Hákon Þór Svavarsson, haglabyssuskotfimi
• Hilmar Örn Jónsson, sleggjukast
• Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, taekwondo
• Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sund
• Svana Bjarnason, klifur
• Thelma Aðalsteinsdóttir, áhaldafimleikar 
• Valgarð Reinhardsson, áhaldafimleikar

DEILA