Ný verðsjá verðlagseftirlits ASÍ

Verðlagseftirlit ASÍ hefur gefið út mælaborð þar sem skoða má verðsamanburð milli verslana bæði í heild, eftir vöruflokkum og niður í stakar vörur.

Gögnin uppfærast daglega með nýjustu verðum sem verðlagseftirlitið hefur aflað.  Með mælaborðinu hafa neytendur nú greiðan aðgang að vöruverði í ólíkum verslunum. Eru þetta sömu gögn og áður hafa aðeins verið aðgengileg í gegnum smáforrit verðlagseftirlitsins, Prís. 

Þegar mælaborðið er skoðað er í fyrsta lagi greinilegt að breitt verðbil er á verslunum, eins og fyrri kannanir verðlagseftirlitsins hafa leitt í ljós.

Á heildina litið er meðalfjarlægð verða frá lægsta verði minnst í Bónus, undir 1%, en mest í 10-11, um 80%. 

Sé smellt á undirflokka kemur í ljós nokkur munur eftir því hvaða undirflokkur er skoðaður. Til dæmis er pasta að meðaltali rúmum 60% dýrara í 10-11 en þar sem það er ódýrast, en gosdrykkir meira en tvöfalt dýrari. Vatnsdrykkir eru 150% dýrari að meðaltali. 

Þegar flett er á aðra síðu mælaborðsins er hægt að skoða flokkana vöru fyrir vöru og sjá vörum raðað eftir verðbili. Til dæmis er Thule pilsner í dós sú vara sem er með eitt mesta verðbilið; kostar 119kr í Bónus en 449kr í 10-11. 

Séu undirflokkar valdir sjást verðbilin á hverri vöru fyrir sig í undirflokkunum. Þegar smellt er á Kaffi, te og kakó sést að mesta verðbilið er á Te&Kaffi French Roast hylkjum, sem eru meira en tvöfalt dýrari í 10-11 en í Bónus. 

Nánar má lesa um þetta á heimasíðu ASÍ

DEILA