Leiðangursskip leggja sitt af mörkun til að draga úr álagi á heilbrigðiskerfið

Fyrir páskana var haldin í Keflavík árleg ráðstefna Samtaka leiðangursskipa á Norðurslóðum (AECO), Landhelgisgæslu Íslands (ICG) og leitar og björgunarmiðstöðvar í N-Noregi (JRCC NN) um samvinnu í leit og björgun á Norðurslóðum.

Ingvar Örn Ingvarsson sagði ráðstefnuna hafa verið gríðarlega vel heppnaða, þar var fjöldi sendiherra, landhelgisgæslur Íslands og Noregs, Arctic Council og fleiri aðilar. Alls hafi verið hátt í 100 manns.

Síðasta sumar fjölluðu fjölmiðlar um hvort skemmtiferðaskip væru byrði á heilbrigðisþjónustunni. Þetta málefni var sérstaklega til umræðu á þessari ráðstefnu. Ferðaþjónustan fer vaxandi á norðurslóðum og ein af áskorunum hennar er takmörkuð heilbrigðisþjónusta á landi.

Leiðangursskip eru minni en hefðbundin skemmtiferðaskip og kanna gjarnan framandi slóðir og fræða farþega um náttúru og menningu norðurslóða. Þessi skip hafa viðkomu víðar en stærstu skemmtiferðaskipin og geta siglt inn á þrönga firði og hleypt farþegum í land á afskekktum svæðum. 

Á ráðstefnunni kom í ljós að þrátt fyrir að ferðamenn frá hefðbundnum skemmtiferðaskipum séu aðeins um 13-14% ferðamanna á Íslandi og ferðamenn á leiðangursskipun einungis brot af þeirri heild eru ýmsir möguleikar til að yfirstíga áskoranir í heilbrigðisþjónustu á áfangastöðum með frekari aðgerðum af hálfu útgerðanna. Þetta hefur verið gert með nánu samstarfi m.a. í Longyearbyen á Svalbarða þar sem 2.500 íbúar eyjunnar geta fengið yfir háannatímann allt að nokkur þúsund ferðamenn á dag.

Í gegnum slíkt samstarf hafa leiðangursskip unnið að því að minnka álag og efla heilbrigðisþjónustuna í samfélögum á Norðurslóðum. Leiðangursskip og hefðbundin skemmtiferðaskip eru almennt búin háþróaðri og vel mannaðri sjúkraaðstöðu sem getur hjálpar til við heilbrigðisþjónustu á afskekktari stöðum.

Sjúkrahúsið á Svalbarða tókst á við áskoranir í heilbrigðiskerfinu

Á sjúkrahúsinu í Longyearbyen á Svalbarða eru 22 starfsmenn, þar af fjórir læknar og sex hjúkrunarfræðingar, en sjúkrahúsið veitir 2.500 íbúum og ferðafólki sem eru  samanlagt um 135.000 á ársgrundvelli bæði heilsugæslu og sérfræðiþjónustu.

Í fyrra var tekið upp samstarf á milli sjúkrahússins og AECO þar sem upp var komin áskorun í heilbrigðiskerfinu þar sem sinna þurfti bæði heimafólki og ferðafólki. Samstarfið við leiðangursskipin leiddi til minna álags á heilbrigðisþjónustuna í bænum. Vegna takmarkaðra bjargráða í Longyearbyen hefur samstarfið við leiðangursskipin reynst mikilvægt. Alvarlega veikur sjúklingur sem þyrfti mikla aðstoð gæti til að mynda stofnað bjargráðum sjúkrahússins fyrir aðra sjúklinga í hættu. Kristin Furu Grøtting sem stýrir sjúkrahúsinu segir að það hafi verið lykilatriði að miðla til útgerðanna stöðu sjúkrahússins sem hafi leitt til betri undirbúnings hjá skemmtiferðaskipunum, m.a. með auknu samstarfi til að draga úr álagi.

Með réttum búnaði geta leiðangursskip sinnt lang flestum tilfellum farþega og jafnvel létt álagi af afskekktum svæðum. Skip eru að jafnaði með einn lækni og jafnvel hjúkrunarfræðing um borð. Þá er í flestum skipunum töluverður búnaður, eins og tæki til að taka hjartalínurit (e. 12 Lead ECG er í 60% skipa), hægt er að mæla blóðsykur í öllum skipum, hægt er að mæla hvít blóðkorn, öndunarvélar eru í 45% skipanna, lífefnapróf í 40% þeirra, röntgentæki í 40%, ómskoðunartæki í 20% skipanna og einnig eru ráð til læknisfræðilegs inngrips. Þar má nefna segasundrara (e. Thrombolytic agent) við hjartaáfalli eða slagi sem eru í 60% skipanna, gifs til að búa um brot eru í 45% þeirra, sýklalyf eru í öllum skipum bæði til að gefa í æð eða með töflum, ópíóðar eru einnig í öllum skipum til að verkjadeyfa og saman þýðir þetta að sýkingar og sársauka er almennt hægt að meðhöndla um borð.

Tölfræðina vantar

Í leiðangursskipum er miðað við að hægt sé að halda fólki stöðugu eftir alvarleg veikindi eða atvik í 72-96 klukkustundir. Í hefðbundnum skemmtiferðaskipum er oft enn betri búnaður og sjúkrastofur. Samtal heilbrigðisyfirvalda og útgerða skemmtiferðaskipa er því mjög mikilvægt á hverjum stað fyrir sig svo hægt sé að tryggja sem best að álag á heilbrigðisinnviði hvers áfangastaðar sé sem allra minnst, og jafnvel – á afskekttari stöðum – minna en ella fyrir tilstuðlan skipaferða.

Í umræðum á ráðstefnunni kom fram að fæst sjúkrahús haldi formlegar tölur sem aðgreini fjölda sjúklinga frá skemmtiferðaskipum frá öðrum ferðamönnum sem leita á sjúkrahús. Þó sé ljóst að fjöldi ferðamanna á Íslandi hafi áhrif á heilbrigðiskerfið. Sameiginlegt átak heilbrigðisyfirvalda og útgerða þurfi til að hægt sé að safna gögnum um fjölda sjúklinga frá skemmtiferðaskipum, skilja betur þennan vanda og vinna í áttina að lausn. Sjúkrahúsið í Longyearbyen á Svalbarða er dæmi um sjúkrahús þar sem samstarf við skemmtiferðaskip hefur létt undir álag í heilbrigðisþjónustu. Samstarfið sýnir einnig hvernig megi nýta betur sjúkraaðstöðu og starfsfólk um borð í skemmtiferðaskipunum og hvernig skemmtiferðaskip hafa lagt sitt af mörkum til að draga úr álagi á heilbrigðisinnviði.

DEILA