Ísafjarðarbær samþykkir stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa 

Bæjarstjórn samþykkti í síðustu viku stefnu um mótttöku skemmtiferðaskipa og aðgerðaáætlun til ársins 2027. Hafnarstjórn hafði undirbúið málið og lagt fyrir bæjarstjórnina.

Í inngangi stefnunnar segir að móttöku skemmtiferðaskipanna hafi fylgt miklar tekjur fyrir hafnarsjóð, ferðaþjóna, verslanir og þjónustu. Mörg fyrirtæki sem starfa á ársgrundvelli og þjóna heimamönnum hefðu ekki rekstrargrundvöll án skemmtiferðaskipanna. Þá segir að Ísafjarðarhöfn sé stærsti ferðaþjónninn á Vestfjörðum. Því fylgi tækifæri og ábyrgð, og einn liður í því er að sveitarfélagið og höfnin setji sér skýra stefnu.

Í stefnuorðum segir að Ísafjarðarbær sé aðlaðandi áfangastaður fyrir skemmtiferðaskip. Móttaka þeirra skapi samfélaginu öllu tekjur og uppfyllir öll þrjú skilyrði sjálfbærrar þróunar; hagrænnar, umhverfislegrar
og félagslegrar.

Í aðgerðaráætlun segir að áfram verði allar hafnir í Ísafjarðarbæ markaðssettar sem áfangastaðir fyrir skemmtiferðaskip. Mest áhersla er á Ísafjarðarhöfn og þar verði stærstur hluti fjárfestingar tengd móttöku skipanna. Við framkvæmdir á öllum höfnunum verði litið til þess að þær nýtist öllum notendum, þ.m.t. skemmtiferðaskipum.

Teknir verða upp fjárhagslegir umhverfishvatar, t.d. EPI, þegar Alþingi heimilar slíka gjaldtöku.

Höfnin setji á stofn sérstakan sjóð sem hafi tvíþætt hlutverk;
að styrkja sjálfstæð verkefni sem efla höfnina sem áfangastað, svo sem með uppbyggingu innviða, uppsetningu skilta, eða bætt aðgengi, og
styrkja menningu- og félagslíf í bænum á svipaðan hátt og samfélagssjóður Orkubúsins.

Klárað verði deiliskipulag fyrir Suðurtanga árið 2024 og uppbygging samkvæmt því hefjist strax í kjölfarið.

Ráðist verður í hönnun á húsi fyrir farþegamóttöku árið 2024 svo framkvæmdir geti hafist 2025.

Almennt skulu skemmtiferðaskip ekki taka land utan hafna. Þar sem Ísafjarðarbær er landeigandi er það því bannað nema í undantekningartilvikum og þá með leyfi bæjarstjóra eða hafnarstjóra. Skemmtiferðaskip skulu hafa skýrt leyfi landeigenda til landtöku utan hafna. Um landtöku í Hornstrandafriðlandinu gildir verndaráætlun sem meðal annars banna landtöku hópa sem eru fjölmennari en 51.

Settur verður tveggja skrefa hámarksfjöldi farþega sem tekur breytingum á tímabilinu. Lægri hámarksfjöldinn segir til um hvenær skipafélög eru hvött til að leita annað, en við efri mörkin sé lokað fyrir bókanir. Hámark gildir ekki árið 2024 þar sem bókanir hafa fyrir löngu verið staðfestar.

DEILA