Hagstofan: íbúum í Vesturbyggð fækkar um 7%

Patreksfjörður um sjómannadagshelgina síðustu.. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Íbúum á Vestfjörðum fækkaði um 308 um áramótum samkvæmt nýju tölum Hagstofunnar sem gefnar voru út 21. mars síðastliðinn. Voru íbúarnir 7.168 í stað 7.476, sem áður hafði verið gefið upp sem fjöldinn með lögheimili á Vestfjörðum 1. janúar 2024. Á landsvísu fækkaði íbúum landsins um nærri 17.000 manns og gætir breytinganna í öllum sveitarfélögum á landinu.

Hingað til hefur íbúafjöldi eingöngu byggt á skráningu lögheimilis í þjóðskrá. Hagstofan breytti aðferð sinni við útreikning á mannfjölda. Ný aðferð byggir á breiðari grunni opinberra gagna; skattagögnum og nemendagögnum auk þjóðskrár. Hagstofan telur meginástæðu misræmisins sem myndast hefur að mikill hvati er til þess að skrá alla útlendinga sem hingað koma með lögheimili en hins vegar sé lítill sem enginn hvati til þess að afskrá þá við flutning frá landinu.

Við þessa breytingu fækkar íbúum á Vestfjörðum um 4% eins og staðan var á nýársdag. Mest verður breytingin í Vesturbyggð, en þar fækkar íbúum um 7,1% eða úr 1.190 manns í 1.106. Næstmest fækkun verður í Tálknafjarðarhreppi en þar fækkaði íbúum um 4,2%. Þriðja mesta fækkunin er svo í Ísafjarðarbæ 3,6%. Í einu sveitarfélagi, Árneshreppi varð engin breyting, íbúarnir voru jafnmargir eftir breytinguna.

Borið er saman við íbúatölur Þjóðskrár Íslands.

DEILA