Bolungavíkurhöfn: færa karavogina

Teikning af fyrirhuguðum flutningi á karavog.

Meðal verkefna ársins í Bolungavíkurhöfn verður að færa skeifuvog/karavog af núverandi
staðsetningu niður á Brimbrjót. Hvorki Fiskistofa né Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gera athugasemd við breytinguna.

Hafnarstjórn hefur falið hafnarstjóra að fara í umræddar breytingar. Kostnaðaráætlun er 3m.kr.

Með færslunni verður dregið verulega úr akstri með fisk um hafnarsvæðið og einkum á þetta við um línu- og færafisk. Nýja staðsetningin er nær löndunarkantinum og fiskmarkaðnum.

Þá verður tekin upp aðgangsstýring á Brimbrjótinn sem verður til þess að tekið verður fyrir umferð bíla um Brjótinn en gangandi umferð mun áfram eiga greiða leið og hægt verður að veiða með stöng af Brjótnum sem verið hefur afar vinsælt.

Kristján Jón Guðmundsson hafnarstjórnarmaður segir að auk þessa verði hugað að flotbryggjum og skoða þurfi lengingu á þriðju flotbryggjunni þar sem útlit er fyrir aukna umferð sjóstangveiðibáta.

DEILA