Arnarlax – kaupir hybrid þjónustubát

Arnarlax hefur undirritað samning við norsku skipasmíðastöðina Moen Marin um smíði á þjónustubát sem verður með blendingslausn eða hybrid. Er þá báturinn knúinn áfram með rafmagni en hefur einnig möguleika á að nota venjulegt eldsneyti. Í einum svona bát er jafnmikið af batteríum og í 12 Teslum. Verður það fyrsti þjónustubáturinn hér á landi af þessu tagi, en nokkur reynsla er komin á svona báta í Noregi.

Verð er um 500 milljónir íslenskra króna og afhending er áætluð í mars 2025.

Með þessu leitast Arnarlax við að nota umhverfisvænar lausnir og draga úr kolefnismengun. Björn Hembre, forstjóri Arnarlax segir í fréttatilkynningu að sem stærsta eldisfyrirtæki á landinu vilji það vera leiðandi í grænum orkuskiptum.

Þorsteinn Másson, framkvæmdastjóri Bláma segir að þessi samningur marki nýtt skref í áformum um orkuskipti á Íslandi og sýni að Arnarlax er staðráðið í að draga úr kolefnislosun og þróa nýjungar sem stuðla að því.

DEILA