Afli í minna lagi í mars

Frá Patrekshöfn í desember sl. Mynd: Patrekshöfn.

Aflabrögð voru með minna móti í nýliðnum mánuði í þremur aflahæstu höfnum á Vestfjörðum. Í Ísafjarðarhöfn var landað 825 tonnum, litlu minna í Bolungavík eða 815 tonnum og 273 tonnum í Patrekshöfn.

Togarinn Páll Pálsson ÍS landaði 485 tonnum af bolfiski eftir 6 veiðiferðir. Hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson RE landaði þrisvar í mars samtals 85 tonnum. Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS landaði einu sinni 197 tonnum af afurðum. Loks landaði Vestri BA 58 tonnum af rækju.

Í Bolungavík var togarinn Sirrý ÍS aflahæst með 337 tonn eftir fjórar veiðiferðir. Dragnótabáturinn Ásdís ÍS var með 26 tonn í tveimur veiðiferðum.

Þrír línubátar lönduðu í Bolungavíkurhöfn í mars. Fríða Dagmar ÍS kom með 214 tonn í 13 veiðiferðum. Jónína Brynja ÍS fór einnig 13 róðra og landaði 203 tonn og loks landaði Indriði Kristins BA tvisvar samtals 36 tonnum.

Á Patreksfirði var það línubáturinn Núpur BA sem varð aflahæstur með 233 tonn eftir fimm róðra. Sindri BA landaði einu sinni 1 tonni og Alli gamli var á handfæraveiðum og landaði 1,6tonnum. Patrekur BA var á dragnót og kom með 36 tonn í tveimur veiðiferðum.

Ekki eru komnar tölur yfir landaðan eldisfisk í mánuðinum.

DEILA