Albert í Vísindaporti Háskólaseturs

Í Vísindaporti 5. apríl mun Albert Eiríksson halda erindi sem hann nefnir „Matur er fyrir öllu“

Það má með sanni segja að að matur sé fyrir öllu. Hins vegar getur verið snúið að finna út hvað fer vel í okkur og hvað fer síður vel í okkur. Gott er að hafa í huga: Að stórum hluta erum við ábyrg fyrir eigin heilsu og muna að það er aldrei of seint að byrja. Hollur kjarngóður alvöru matur gerir okkur gott, hreyfing og nærandi félagsskapur hefur einnig mikil áhrif.

„Þó ég sé frekar upptekinn af hollum mat þá er markmiðið ekki að verða 125 ára heldur að líða vel og lifa sæmilega góðu lífi núna og það sem ég á eftir. Að tengja næringu og líðan ásamt því að skilja af hverju sumt sem var að hrjá mig hefur lagast gerir mig mun meðvitaðri um hvernig ég vil hafa áframhaldið.” segir Albert.

Albert Eiríksson lærður matreiðslumaður og hárgreiðslumaður. Hann stofnaði safnið Fransmenn á Íslandi á Fáskrúðsfirði og rak það í fjölmörg ár. Þá starfaði hann lengi við leiklistar- og tónlistardeildir Listaháskóla Íslands en hefur síðustu ár verið aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar. Albert og eiginmaður hans Bergþór Pálsson eru annálaðir gestgjafar og hafa í mörg ár tekið á móti hópum heim og haldið veislur, auk þess að vera með fyrirlestra um borg og bý.

Albert hefur notið handleiðslu Elísabetar Reynisdóttur næringarfræðings og saman voru þau með námskeið um bætta líðan fólks með góðri næringu.

Ein vinsælasta matarbloggsíða landsins, alberteldar.is er hugarfóstur Alberts. Auk fjölbreyttra uppskrifta er þar fróðleikur um áhrif matar og kurteisi svo eitthvað sé nefnt.

Erindið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða kl 12.10.

DEILA