Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins ehf er í viðtali vikunnar. Bæjarins besta lagði fyrir hann nokkrar spurningar um félagið og starfsemi þess og svo um Halldór sjálfan og áhugamál.
Ég er ráðinn sem forstjóri af hálfu eigenda Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. (Ískalk) árið 2018 í framhaldi af því að ég hætti sem borgarfulltrúi í Reykjavík. Þar áður var ég bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar í 12 ár (1998-2010) og jafnlengi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga (2006-2018). Þar áður var ég lengst af í Grindavík með eigið fyrirtæki og starfaði sem verkstjóri hjá Þorbirni hf. í fiskvinnslu.
Eigendur eru og hafa verið frá upphafi írska fyrirtækið Marigot sem á 99% hlutafjár. Ískalk er stofnað af Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða til að sporna við neikvæðri þróun og hnignun á Bíldudal um síðustu aldamót. Enginn íslenskur rekstraraðili fékkst að fyrirtækinu. Það var mikil gæfa að fá Írana að málinu því það fyrirtæki var með gríðarlega reynslu af vinnslu kalkþörunga og mikla vöruþróun og markaðssetningu. Upphaflegar hugmyndir voru um 6-7 manna fyrirtæki en við erum 30 manns í dag.
Og það var Bank of Scotland sem fjármagnaði í upphafi af því að enginn íslenskur banki vildi gera það.
Við framleiðum úr kalkþörungum sem hafa myndað set á botni Arnarfjarðar. Þetta eru dauð set, lifandi kalkþörungar eru ofan á sumum þeirra en við höfum gert tilraunir með að flytja þá annað og hefur það heppnast vel.
Frá náttúrunnar hendi eru 74 mismunandi steinefni í kalkþörungum og er kalsíum þar viðamest eða um 34%. Við þurrkum efnið, mölum, pökkum, búum til fóðurkúlur og fleira. Mest fer í fóðurbæti sem seldur er til yfir 70 landa í heiminum. Þá í vatnshreinsun en fyrirtæki í Frakklandi kaupir af okkur þurrkaða kalkþörunga og framleiðir síur sem notaðar eru í tengslum við að fá steinefni aftur í vatn eftir hreinsun. Og svo þvoum við, sigtum og pökkum efni til manneldis sem er selt til matvælaframleiðenda sem nota efnið í ávaxtasafa og ýmis matvæli. Einnig til þeirra sem framleiða heilsuvörur fyrir bein og liði eins og t.d. Hafkalk á Bíldudal.
Tilkoma Ískalk sem hóf starfsemi á árunum 2005-2007 skipti miklu fyrir Bíldudal og gerir enn. Vægi þess er þó minna en í upphafi vegna þess að Arnarlax er með mikla starfsemi og vaxandi á Bíldudal og svæðinu öllu. Þess vegna hefur byggðaþróun snúist við sem er mikilvæg fyrir Vestfirði sem hafa þjáðst af undanhaldi í alltof langan tíma.
fjárfesting 4 milljarðar króna og 30 störf
Kalkþörungaverksmiðjan var í upphafi stór fjárfesting og sífellt þarf að bæta við fjárfestinguna til að standast tímans tönn. Heildarfjárfesting frá upphafi nemur um 4 milljörðum og í ár verður fjárfest fyrir 356 milljónir kr. Stærsta einstaka framkvæmdin varðar hreinsivirki fyrir eldri þurrkara þar sem skipt verður úr vothreinsibúnaði í síubúnað en slíkur búnaður hefur reynst afskaplega vel á nýrri þurrkara verksmiðjunnar.
Þó Ískalk sé í miklum átökum varðandi skattamál fyrirtækisins; en við ákváðum að fara með það fyrir dómstóla landsins þá er engan bilbug á okkur að finna. Móðurfélagið er sterkt með mikla og fjölbreytta starfsemi í allmörgum löndum. Við erum með nýtingarleyfi í Ísafjarðardjúpi og erum í samstarfi við Súðavíkurhrepp að fjármagna hluta landfyllingar og bryggju innan Langeyrar í Álftafirði þar sem við hyggjumst reisa verksmiðju til að vinna kalkþörunga úr Djúpinu. Nýtingarleyfi okkar í Arnarfirði gildir til 1. desember 2033.
Af umfangsmikilli starfsemi rennur töluvert til samfélagsins í formi styrkja til íþróttastarfs og alls konar félagsstarfs. Þá skiptir starfsemi Ískalk miklu máli fyrir þjónustuaðila á svæðinu og með tilkomu Dýrafjarðarganga þá getum við fengið þjónustu frá norðanverðum Vestfjörðum sem áður þurfti að fá frá Reykjavík. Hins vegar þarf Vegagerðin að halda veginum niður í Trostansfjörð opnum en ekki skilja þann bút eftir án þjónustu allan veturinn.
10 milljarðar kr. í laun og til verktaka
Sem dæmi um greiðslur má nefna að frá upphafi til loka ársins 2022 greiddum við til verktaka rúma 7 milljarða kr. Fyrir sama tímabil til ríkisins fyrir efnistöku í Arnarfirði 150 milljónir kr. Til Hafna Vesturbyggðar 500 milljónir kr. fyrir hafnargjöld en Ískalk skipar öllu beint út frá Bíldudal í stað þess að aka með það og renna því þau gjöld til heimahafnar. Launagreiðslur til starfsfólks er fyrir tímabilið 3 milljarðar kr. og þannig mætti telja fleira slíkt til en það er ansi langt mál. Þessar tölur sýna ótvírætt fram á að það munar um starfsemi Ískalk.
Það er fjölbreytt og skemmtilegt starf að stýra starfsemi Ískalk með afskaplega hæfum stjórnendum á Bíldudal og góðu starfsfólki. Tengslin við móðurfélagið eru áhugaverð og gefa innsýn í fjölbreytta og ólíka starfsemi þess. Samstarf milli ólíkra eininga og milli landa er að aukast og skilar það meiri reynslu og stundum einhverri hagkvæmni varðandi innkaup. Sem dæmi um aðra starfsemi má nefna tvær verksmiðjur í Skotlandi sem framleiða viskí. Verksmiðju á Írlandi sem framleiðir náttúrulega matarliti fyrir matvælaiðnaðinn og þannig má lengi telja.
Það er gott að vera á Bíldudal og Vestfjörðum almennt. Þegar ég var ráðinn í starfið var ég fluttur til Reykjavíkur og bý þar enn. Starfið var í rauninni flutt frá höfuðstöðvum á Írlandi til Íslands. Ég fer því á milli Reykjavíkur og Bíldudals og eftir atvikum til Súðavíkur en líka til Cork á Írlandi. Svo eru verksmiðjustjóri á Bíldudal með sínu fólki.
Þó sjaldan gefist tími þá kemur fyrir að við hjónin förum á jörðina sem við systkinin eigum saman en þar ólumst við upp. Það er Ögur í Ísafjarðardjúpi sem margir kannast við enda liggur þjóðleiðin nánast um hlaðið þar. Þar er rekin örlítil ferðaþjónusta á sumrin með kaffihúsi og einstöku sjókajakferðum eða gönguferðum sem við sinnum í huta af okkar sumarfríi. Það má segja að þar liggi áhugamálin jafnframt því það jafnast fátt á við það að hlaða kajakinn af vistum, tjöldum og viðlegubúnaði og fara svo í 5-8 daga ferð um Djúp og Jökulfirði. Það er svo sannarlega hleðsla sem dugir til næsta árs.
Auk þessa höfum við hjónin ánægju af því að fara um landið á mótorhjólunum okkar, taka með tjald og njóta okkar einstaka lands.