VG: vill þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum

Í stjórnmálaályktun flokksráðsfundar Vinstri grænna sem haldinn var um liðna helgi segir að sýnt hafi verið fram á að með bættri orkunýtingu og með því að styrkja flutningskerfi raforku um landið megi á næstu árum koma í veg fyrir orkuskömmtun og koma til móts við aukna orkuþörf sem ella kallaði á nýjar virkjanir. Þá kallar fundurinn eftir því að stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendi Íslands og sunnanverðum Vestfjörðum til verndar víðernum og lífbreytileika.

Orkubú Vestfjarða hefur farið fram á það við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að hann aflétti friðunarskilmálum um friðlandið í Vatnsfirði í Vesturbyggð, þannig að unnt verði að taka Vatnsdalsvirkjun til umfjöllunar í rammaáætlun og bera saman við aðra kosti.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri segir í aðsendri grein á bb.is sem birtist á laugardaginn að Vatnsdalsvirkjun yrði tengd með 20 km flutningsleið í landi ríkisins og Orkubúsins, beint í tengivirki Landsnets í  Mjólká og að sú náttúruvá sem að steðjar á Íslandi um þessar mundir hljóti að leiða til þess að hugað verði frekar að minni og dreifðari virkjunarkostum, utan jarðskjálfta- og eldgosasvæða, eins og Vatnsdalsvirkjun. 

DEILA