U.M.F. Afturelding í Reykhólasveit 100 ára

Þann 14. mars voru 100 ár frá stofnun Ungmennafélagsins Aftureldingar í Reykhólasveit.

Félagið er eitt af aðildarfélögum í Ungmennasambandi Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN).

Í fyrri tíð voru starfandi ungmennafélög í öllum hreppunum fimm í sýslunni, sem frá 1987 mynda saman Reykhólahrepp, þau voru:

  • Ungmennafélagið í Flatey, stofnað 1909 (ekki er vitað hvenær það varð óvirkt).
  • Ungmennafélagið Vísir í Múlasveit, stofnað 1928 (síðasti skráði fundur 1957).
  • Ungmennafélagið Hvöt í Gufudalssveit, stofnað 1927 (starfsemin lagðist af um 1956).
  • Ungmennafélagið Unglingur í Geiradal, stofnað 1909 (síðasti skráði fundur 1980, sameinað Aftureldingu 1989).
  • Ungmennafélagið Elding í Reykhólasveit, líklega 1906 – 1910, en litlar heimildir eru til um félagið.
  • Ungmennafélagið Afturelding í Reykhólasveit, stofnað 1924, starfar enn og er jafnframt eina starfandi ungmennafélagið í Austur-Barðastrandarsýslu /Reykhólahreppi.

Í dag eru 82 félagar í Aftureldingu og af þeim eru 30 iðkendur á aldrinum 10 – 45 ára.

Í samvinnu við tómstundafulltrúa Reykhólahrepps eru æfingar í fótbolta, bogfimi, líkamsrækt og hestaíþróttum. Á sumrin heldur samstarfið áfram þar sem tómstundafulltrúi er með leikjanámskeið og ungmennafélagið sér um íþróttaæfingar.

Ungmennafélagið er með líkamsræktaraðstöðu í kjallara Grettislaugar og stendur til að gera endurbætur á henni á þessu ári. Þar er sami opnunartími og hjá Grettislaug.

Stjórnina skipa í dag Styrmir Sæmundsson formaður, Katla Ingibjörg Tryggvadóttir ritari og Sandra Rún Björnsdóttir gjaldkeri.

Stjórn Aftureldingar stefnir að því að vera með afmælisfagnað í lok júnímánaðar í tilefni 100 ára afmælisins.

DEILA