Þarf allt að 1.000 íbúðir á Vestfjörðum

Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Á hinum nýja vef Vestfjarðastofu Inwest.is kemur fram að vöxtur í atvinnulífi Vestfjarða í tengslum við ferðaþjónustu og fiskeldi  kalli á aukningu í íbúðabyggingu á svæðinu. Miðað við ráðgerðan vöxt í grunnatvinnuvegum og tengdum þjónustugreinum næstu árin, þá staðreynd að íbúðahúsnæðir skorti fyrir eldra fólk sem vill minnka við sig og mikla þörf fyrir hentugt leiguhúsnæði fyrir fólk sem vill flytja á vaxtasvæðið Vestfirði þá sé þörf fyrir allt að þúsund íbúðir á Vestfjörðum á næstu 5 árum.

Bent er á þessa þörf sem tækifæri til fjárfestingar í íbúðarhúsnæði. Fasteignaverð á Vestfjörðum hefur farið hækkandi á Vestfjörðum síðustu ár og muni það verða jafnt byggingarkostnaði.

Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu segist vilja leggja áherslu á að „við erum að stíga fyrstu skrefin við að kynna fjárfestingamöguleika á Vestfjörðum og vefurinn er hluti af stærra verkefni við að laða að fjárfestingar og stuðla að uppbyggingu á svæðinu.  Vefurinn er í stöðugri þróun og hægt að bæta við upplýsingum inn á hann hvenær sem er.  Vefurinn er unninn í góðu samstarfi við fyrirtæki og sveitarfélögin á svæðinu.  Við þiggjum allar ábendingar um vefinn og efni inn á hann. „

DEILA