Stækkun Mjólkár: telja ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum

frá Mjólká.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar telur umfang framkvæmdanna vegna stækkunar Mjólkárvirkjunar ekki þess eðlis að þær falli undir mat á umhverfisáhrifum þar sem umhverfið er nú þegar raskað vegna fyrri framkvæmda.

Skipulagsstofnun hefur fengið tilkynningu frá Orkubúi Vestfjarða um fyrirhugaðar framkvæmdar, sem eiga að auka raforkuframleiðslu virkjunarinnar um 0,5 MW og er að afla umsagna frá stofnunum og öðrum aðilum. Skipulagsstofnun mun kveða upp úr um það hvort sérstakt umhverfismat þurfi að fara fram innan sjö vikna.

Orkubú Vestfjarða hyggst hækka stíflu við Tangavatn um 3 metra og virkja fall vatnsins þaðan að Hólmavatni og fá við það 0,5 MW afl. Gert er ráð fyrir 700 metra langri þrýstipípu sem verði 0,7 metra víð. Virkjunin í dag gefur 11,2 MW afl og 64-75 GWh á ári en gildandi skipulag heimilar 12,05 MW virkjun og er ekki gert ráð fyrir að auka það.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur þegar samþykkt að  auglýsa breytingar á bæði aðalskipulagi og deiliskipulagi við Mjólká í Arnarfirði til þess að heimila framkvæmdaáformin.

DEILA