Stækkaðu framtíðina – Fólk utan höfuðborgarsvæðisins hvatt til að taka þátt

Verkefnið „Stækkaðu framtíðina“ tengir fólk af vinnumarkaði við skólastofur landsins til að segja nemendum frá starfi sínu og menntun. Þannig víkkar sjóndeildarhringur nemenda og öll ungmenni á Íslandi fá tækifæri til að eiga fyrirmynd.

Það er einfalt að taka þátt. Þú skráir þig sem sjálfboðaliða og þá getur kennari boðið þér í heimsókn. Kennarinn hjálpar þér svo að undirbúa heimsóknina þannig að þú vitir hvernig er best að haga henni og spjalla við nemendur, á hvaða aldri sem þeir eru.

Þú ræður hversu margar heimsóknir þú tekur að þér – allt eftir tíma þínum og áhuga. Heimsóknirnar geta farið fram á staðnum eða í gegnum netið.

Stækkaðu framtíðina er íslensk útgáfa af breska verkefninu Inspiring the Future. Verkefnið hóf göngu sína í Bretlandi árið 2012 og hafa um 75.000 sjálfboðaliðar tekið þátt í því. Verkefnið er rannsóknamiðað og er einnig haldið úti í Ástralíu, Nýja Sjálandi og Sviss auk þess að teygja anga sína víðar.

NýMennt (Nýsköpun og Menntasamfélag á Menntavísindasviði HÍ) heldur utan um verkefnið hér á landi en það var sett á laggirnar af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu og mennta- og barnamálaráðuneytinu.

DEILA