Seglskúta stjórnvana við Straumnes

Straumnesviti. Mynd: Wikimedia.

Á fjórða tímanum í dag hafði seglskúta samband við Landhelgisgæsluna á VHF rás 16 og kvaðst vera stjórnvana skammt undan Straumnesi á Vestfjörðum. Skútan hafði verið í togi hjá öðrum báti en dráttartaugin slitnaði vegna slæms sjólags og tókst ekki að tengja dráttartaugina á milli skipanna aftur. Áhöfn skútunnar dró þá upp segl og reyndi þannig að sigla í skjól en þá gaf stýri skútunnar sig og varð hún því stjórnvana. Skútan var þá um eina sjómílu norður af Straumnesi. Slæmar aðstæður voru á vettvangi vegna hvassviðris og sjólags og ákvað skipstjóri skútunnar að lýsa yfir neyðarástandi og óska aðstoðar Landhelgisgæslunnar. Fjórir voru um borð í skútunni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni sem var að berast.

Landhelgisgæslan kallaði þegar út á hæsta forgangi þyrlu, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Ísafirði og Bolungarvík ásamt því að hafa samband við nærstödd skip og báta og óska aðstoðar þeirra.

Á vettvangi var hvöss norðaustanátt og þar sem straumur féll á móti vindi var kröpp alda og aðstæður erfiðar. Skútuna rak þó til suðvesturs en ekki að landi.

Áhöfn skútunnar tókst að setja út neyðarstýri og gat því siglt skútunni undir seglum inn á Aðalvík í skjól. Um svipað leyti komu fiskeldisþjónustuskipið Fosnakongen og björgunarskipið Gísli Jóns á vettvang en ekki var þörf á aðstoð þeirra þegar þarna var komið. Þyrlunni var snúið við þegar ljóst var að hættuástand var yfirstaðið.

Ráðgert er að sigla skútunni undir seglum inn fyrir Rit þar sem dráttartaug verður tengd að nýju við dráttarskipið og munu skipin síðan halda til hafnar á Ísafirði.

DEILA