Samfylkingin með fundi á Vestfjörðum

Formaður Samfylkingarinnar Kristrún Frostadóttir og Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, sem er formaður í stýrihópi flokksins um atvinnu og samgöngur verða á ferðinni um Vestfirði í vikunni. Halda þær eina fjóra opna fundi um atvinnu og samgöngur.

Yfirskriftin er Hvernig vilt þú sjá atvinnu og samgöngur þróast á Vestfjörðum og á Íslandi öllu? 

Í tilkynningu segir að Samfylkingin standi nú fyrir samtali um atvinnu og samgöngur um land allt. „Málefnastarf flokksins er með nýju sniði – heilbrigðismálin voru í forgrunni á síðasta ári en nú tökum við fyrir atvinnu og samgöngur fram á vor 2024. Vinnan hefst með heimsóknum í fyrirtæki og fjölda opinna funda með fólkinu í landinu. Á hverjum fundi verða fulltrúar úr stýrihópi Samfylkingar um atvinnu og samgöngur auk forystufólks flokksins, bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum.

Kristrún Frostadóttir leggur þunga áherslu á málefnastarfið og bindur miklar vonir við vinnuna: „Útkoman á að vera verklýsing fyrir nýja ríkisstjórn. Forgangsröðun og skýr pólitík. Verkefnalisti frá fyrstu 100 dögunum og upp í fyrstu tvö kjörtímabilin í ríkisstjórn undir forystu Samfylkingarinnar,“ sagði Kristrún í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi áður en haldið var af stað.“

Fyrsti fundurinn verði á miðvikudaginn 12 á Bíldudal á Vegamótum. Sama dag verða tveir aðrir fundir. Á Þingeyri  kl. 17:15 í Blábankanum og kl. 20:00 í Edinborgarhúsinu.

Á fimmtudaginn 7. mars verður svo fjórði fundurinn kl. 12:00 í Einarshúsinu í Bolungavík.

DEILA