Í Vísindaporti á morgun föstudag flytur Rannveig Jónsdóttir erindi um starfsemi Listasafns Ísafjarðar sem var stofnað 12. febrúar 1963 og er elsta Listasafn á Íslandi utan höfuðborgarsvæðisins.
Safnið á sér áhugaverða sögu sem Rannveig ætlar að fjalla um ásamt framtíðarsýn hennar fyrir safnið eftir að hún tók til starfa haustið 2022.
Rannveig Jónsdóttir (f. 1992) er myndlistarmaður sem býr og starfar á Ísafirði þar sem hún ólst einnig upp. Hún lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2017 og MFA námi frá Listaháskólanum í Malmö árið 2019.
Rannveig vinnur sem sérfræðingur hjá Listasafni Ísafjarðar þar sem hún sinnir fjölbreyttum verkefnum hvað varðar uppbyggingu safnsins. Einnig kennir hún við Lista- og nýsköpunarbraut Menntaskólans á Ísafirði og ásamt því að sinna myndlist sinni þar sem hún leggur áherslu á hljóð og skúlptúr.
Erindið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða frá kl. 12.10 til 13.00