Ný nafnskírteini

Útgáfa á nýjum nafnskírteinum er hafin hjá Þjóðskrá Íslands. Ný útgáfa nafnskírteina hefur verið lengi í undirbúningi, allt frá því að fyrsta verkáætlun var samþykkt árið 2007 og fram til ársins 2023 þegar ný lög um nafnskírteini tóku gildi. Þjóðskrá ber ábyrgð á útgáfu og afhendingu skírteinanna.

Nýju nafnskírteinin eru fullgild persónuskilríki og geta allir íslenskir ríkisborgarar óháð aldri sótt um nafnskírteinin og notað þau til auðkenningar.

Eldri nafnskírteini sem voru gefin út fyrir 1. janúar 2013 féllu úr gildi þann 1. desember 2023 með gildissetningu nýrra laga. Eldri nafnskírteini sem gefin hafa verið út eftir þann tíma og fram til 1.mars 2024 falla úr gildi 31. desember 2025.

Íslenskum ríkisborgurum stendur nú til boða að sækja um nafnskírteini sem ferðaskilríki.

Nafnskírteini sem eru ferðskilríki er hægt að framvísa innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) í stað þess að framvísa vegabréfi. Nafnskírteinin staðfesta handahafa kortsins og ríkisfang. Skírteinin eru með örgjörva líkt og vegabréf og fylgja alþjóðlegum stöðlum og ESB-reglugerð.

Munurinn á nafnskírteinum sem ferðaskilríkjum og vegabréfum, er að vegabréf gilda sem ferðaskilríki til allra landa í heiminum en nafnskírteinin gilda innan landa Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Auknar kröfur eru gerðar í samfélaginu um að einstaklingar auðkenni sig með gildum persónuskilríkjum og því nauðsynlegt að koma til móts við þá hópa sem ekki geta framvísað t.d. ökuskírteini.

Með nýju nafnskírteinunum geta ungmenni og aðrir hópar sannað á sér deili með framvísun þeirra og þá sérstaklega innanlands.   

DEILA