Lokað um Þröskulda og Dynjandisheiði

Færð er víða erfið á Vestfjörðum í dag. Lokað er um Þröskulda og yfir Dynjandisheiði. Steingrímsfjarðarheiði er opin en þar er þæfingsfærð og mjög blint. Vegagerðin gefur upp að mokstri verði hætt kl. 15:00 og heiðin muni fljótlega eftir það verða ófær. Leiðinni verður lokað kl. 18:00.

Þæfingafærð er yfir Ennisháls í Strandasýslu. Mokstri verður hætt á Innstrandarvegi kl 16. Lokað er norðan Hólmavíkur í Árneshrepp.

Vandræði á Norðurlandi

Í tilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að björgunarsveitir í Húnavatnssýslum og Skagafirði hafi staðið í ströngu í dag við að aðstoða ferðalanga yfir og niður af Vatnsskarði og út Langadal. Mikil hálka er efst í Bólstaðahlíðarbrekku og hafa bílar fokið þar til. Í einhverjum tilvika hafa bílstjórar ekki treyst sér til að keyra áfram og hefur björgunarfólk keyrt suma bíla niður. Safnað er saman í hópakstur og bílum fylgt niður beggja vegna Vatnsskarðs.

Björgunarsveitin á Dalvík fór fyrr í dag til aðstoðar fólki sem var á ferð um Árskógsstrandarveg. Talsverður fjöldi ökumanna var í vandræðum þar og eitthvert tjón varð á ökutækjum þegar þau rákust saman. Aðgerðum þar er að mestu lokið en enn er verið að fylgja ferðalöngum niður af Vatnsskarði bæði austan og vestan megin. Eins og stendur er þar ekkert ferðaveður og fólk hvatt til að bíða með ferðalög milli landshluta fyrir norðan.

Frá Vatnsskarði. Myndir: Landsbjörg.

DEILA