Lífeyrissjóður gerir 110 m.kr. kröfu á Ísafjarðarbæ

Lífeyrissjóðurinn Brú hefur lagt fram 110 m.kr. kröfu á hendur Ísafjarðarbær vegna A deildar lífeyrissjóðsins. Skýringin er sú að tryggingaleg staða deildarinnar er neikvæð, það er að lífeyrisskuldbundingar sjóðsins gagnvart sjóðsfélögum eru hærri en eignirnar sem standa undir skuldbindingunum.

Vegna þessa tók stjórn Brúar þá ákvörðun í október 2023 að innheimta 10% af greiddum lífeyri hjá launagreiðendum (mest sveitarfélögum) vegna hóps þeirra sem voru 60+ þann 31. maí 2017 og þeim sem voru á lífeyri á þeim degi segir í minnisblaði sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs sem lagt var fyrir bæjarráð í gær.

Með hækkandi lífaldri þjóðarinnar og eftir slaka ávöxtun sjóðsins árið 2022 lá fyrir að halli á tryggingafræðilegri stöðu Brúar lífeyrissjóðs væri umfram 10% lögbundin viðmið. Af þessum sökum hefur sjóðurinn hafið innheimtu framlaga frá sveitarfélögunum vegna þess hóps lífeyrisþega eða launamanna sem Alþingi ákvað með lögum 2016 að áunnin réttindi væru undanþegin því að taka breytingum í samræmi við stöðu sjóðsins.

Í þeim lögum var ákveðið að áunnin réttindi þeirra sem þá höfðu náð sextugsaldri við gildistöku laganna eða höfðu hafði töku lífeyris skyldu tryggð og myndi hvorki hækka né lækka upp frá því.

Um er að ræða stöðu miðað við 30.9.2023, og er von á uppfærslu miðað við 31.12.2023 fljótlega.

DEILA